HeimiliðSnyrtivörur

Skaðleg efni í “náttúrulegum” snyrtivörum

Nýleg rannsókn hefur sýnt fram á að sumar “lífrænar” og “náttúrulegar” snyrtivörur innihalda efnið 1,4-Dioxane sem er bæði mengandi og krabbameinsvaldandi. Þetta efni hefur eituráhrif á nýru, taugakerfi, öndunarfæri og er mengunarvaldur í grunnvatni.

Efnið hefur fundist í snyrtivörum eins og sjampói, sturtusápu og kremum frá fjölmörgum framleiðendum og m.a. í “náttúruvörum”. Vísbending um að efnið sé í vörunum er þegar innihaldslýsingin kveður á um “myreth”, “oleth”, “laureth”, “ceteareth”, eða með endinguna -eth auk orðanna “PEG”, “polyethylene”, “polyethylene glycol”, “polyoxyethylene” og “oxynol”.

Þeir framleiðendur “náttúruvara” sem hafa orðið vísir af því að nota efnið eru

  • JASON Pure Natural & Organics
  • Giovanni Organic Cosmetics
  • Kiss My Face
  • Nature´s Gate Organics

Það kann að koma á óvart að “lífrænar” og “náttúrulegar” vörur innihaldi slík efni en ástæða þess er sú að lítið eftirlit og staðlar eru um framleiðslu á snyrtivörum í Bandaríkjunum. Engar ákveðnar reglur gilda um þær vörur sem kallast “náttúrulegar” og í sjálfu sér getur hver sem er skellt í blöndu af kremkenndu efni og kallað það “náttúrulegt” body lotion. Eins er hægt að hræra í krem, setja smávegis af lífrænum hráefnum út í og kalla það “lífrænt”.

Það sem er borið á húðina fer smám saman inn í blóðrásina og sé efnið ítrekað notað fer meira magn af því inn í líkamann. Það skiptir því máli hvaða innihald er í snyrtivörunum sem við notum. Ágætt viðmið er að setja ekkert á húðina sem ekki má borða. Grunnatriði er að lesa innihaldslýsingu og kynna sér hvaða efni þetta eru sem við smyrjum á okkur. Nokkur þeirra efna sem þú mögulega vilt forðast eru:

Paraben, rotvarnarefni í gríðarlega mörgum snyrtivörum. Þetta efni getur truflað kvenhormónið estrogen og ýtt undir æxli í brjóstum. Fólk getur líka þróað með sér ofnæmi gagnvart efninu.

Phthalates, plastkennt hráefni og mjög algengt í snyrtivörum. Hefur verið tengt við fósturskaða og minnkandi hreyfigetu sæðisfrumna í karlmönnum ásamt fleiri vandamálum.

Musk sem oft er notuð sem ilmefni. Geta safnast upp í líkamanum og valdið óþægindum á húð, hormónatruflunum og mögulega krabbameini.

Tilbúin ilmefni, en þau eru algeng orsök ofnæma og geta aukið áhrif astma og ýtt undir astmaköst.

Methylisothiazolinone (MIT), efni sem notað er í sjampó til að draga úr fjölgun gerla. Getur haft skaðleg áhrif á taugakerfið.

Toluene, búið til úr bensíni og kolatjöru og finnst í flestum tilbúnum ilmvötnum. Mikil nánd við efnið getur leitt til fækkunar rauðra blóðkorna, lifrar- og nýrnaskemmda ásamt því að geta truflað þroska fósturvísa.

Mineral olía, Parrafin (vaxtegund) og vaselín. Þessar vörur þekja húðina eins og plast, stífla svitakirtlana og ýta undir uppsöfnun eiturefna í líkamanum. Þau hægja á frumuþroska sem getur leitt til snemmbærrar öldrunar húðarinnar. Þessi efni eru líka talin ýta undir krabbameinsvöxt og truflun á hormónastarfsemi.

Ágætis þumalputtaregla er að geta lesið og borið fram efnin sem þú setur á húðina. Ef efnið heitir það flóknu nafni að ómögulegt er að bera fram heiti þess er líklegast að það sé fjarri því að vera “náttúrulegt”. Það er því mikilvægt að vera gagnrýnin/nn á snyrtivörur jafnvel þó þær séu “náttúrulegar” eða “lífrænar” og fáist í heilsubúðum.

Sjá einnig: Efni sem við setjum á húðina og í hárið, Nokkur náttúruleg ráð fyrir húðina, Er tannkremið þitt “náttúrulegt”?

Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Kaldar hendur og fætur

Next post

Nokkur náttúruleg ráð fyrir húðina

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *