Heilsa

Tengsl lífsstíls og krabbameins

Ég sagði frá því í síðustu viku að út er komin skýrsla um tengsl lífsstíls og krabbameins, sem byggir á 5 ára rannsóknarvinnu á öllum helstu rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessu sviði. Ég mun birta stuttar greinar á næstunni, sem unnar eru upp úr skýrslunni og byggja á niðurstöðum hennar og á þeim ráðleggingum sem skýrsluhöfundar leggja til.

Það er kannski ekki mikið af nýjum punktum í þessari skýrslu sem við höfum ekki heyrt um áður, en það sem vekur áhuga minn er að skýrsluhöfundar kveða mun harðar að orði en áður hefur verið gert og ganga lengra í ráðleggingum sínum en almennt hefur komið fram.

Til dæmis hefur almennt verið rætt um að lífsstíll geti einvörðungu skýrt um þriðjung krabbameinstilfella þar sem erfðir eru oftast algengasti orsakavaldurinn. Það sem skýrsluhöfundar benda hins vegar á er að sama hver orsökin er fyrir greindum krabbameinstilfellum, þá getur réttur lífsstíll í raun fyrirbyggt lang flestar ef ekki allar gerðir krabbameins.

Þannig að það sem skiptir mestu máli er að þó við séum líffræðilega í áhættuhópi fyrir ákveðnum gerðum krabbameins, þá er það að miklu leyti í okkar höndum að vinna að því að fyrirbyggja raungeringu sjúkdómsins með ástundun góðs lífsstíls.

Þeir þættir sem bent er á að gera til að fyrirbyggja lang flestar gerðir krabbameins eru: forðast tóbaksreyk með öllu, borða hollan mat, stunda reglulega hreyfingu, viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd og varast neikvæð umhverfisáhrif.

Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að þrátt fyrir að fólk geti ekki eða treysti sér ekki í einu og öllu að framfylgja því sem mælt er með, þá skiptir miklu máli að gera eins mikið og hver getur – allt telur, þegar kemur að því að leiðrétta lífsstíl sinn í átt að því að draga úr líkum á krabbameini.

En þeir segja jafnframt, að fólk sem tekst vel upp í að gera þær breytingar sem mælst er til, munu ekki eingöngu minnka líkurnar á krabbameini sem og öðrum sjúkdómum, heldur auka þeir einnig lífsgæði sín og heilbrigði á öllum sviðum.

Helstu leiðbeiningarnar sem skýrslan setur fram eru:

Líkamsþyngd:Verið eins grönn og ykkur er mögulegt, innan eðlilegra marka.
Líkamleg virkni:Verið líkamlega virk í ykkar daglega lífi.
Matur og drykkur:Dragið úr neyslu á orkumiklum mat og forðist sykraða drykki.
Jurtaríkið:Hafið meirihluta fæðunnar úr jurtaríkinu.
Dýraríkið:Takmarkið neyslu á rauðu kjöti og forðist unnar kjötvörur.
Áfengi: Takmarkið áfengisdrykkju.
Matreiðsla:Takmarkið notkun á salti. Forðist korn og baunir með myglu.
Fæðubótarefni:Stefnið að því að fullnægja næringarþörf í gegnum mataræðið.
Brjóstagjöf:Mæður ættu að hafa börn sín á brjósti og börn ættu að vera nærð með brjóstamjólk.

Þeir sam hafa greinst með krabbamein ættu að fylgja sömu fyrirmælum og þeir sem vilja fyrirbyggja krabbamein.

Á næstu dögum mun ég rýna betur í hvern þátt og segja nánar frá þeim leiðbeiningum og tilmælum sem settar eru fram í skýrslunni.

Sjá einnig: Tengsl lífsstíls og krabbameins – LÍKAMSÞYNGD

Previous post

Tea Tree Olía

Next post

Tengsl lífsstíls og krabbameins - LÍKAMSÞYNGD

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *