Neysluvenjur barnanna okkar
Inni á vefsvæði Sölufélags Garðyrkjumanna, islenskt.is er ný grein eftir Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur hjúkrunarfræðing þar sem hún fjallar um okkur foreldrana sem fyrirmyndir barna okkar hvað varðar mataræði og matarvenjur.
Í greininni eru nokkrar sláandi niðurstöður úr rannsókn sem var gerð á Íslandi á árunum 2003 og 2004, á mataræði 9 og 15 ára barna.
Þar segir að innan við 15% barna fylgja ráðleggingum manneldisráðs um að borða að minnsta kosti 200 gr. á dag af ávöxtum og að eingöngu 1% barnanna fylgja ráðleggingum um að borða 200 gr. af grænmeti á dag.
Börnin borða ekki nóg af kjöti og fiski og drekka 15 ára börnin að meðaltali 4 lítra af gosi og svaladrykkjum á viku og 9 ára börnin um 2,5 lítra á viku.
18% 9 ára barnanna taka lýsi daglega en eingöngu 3% þeirra 15 ára.
Og að lokum segir hún frá því að um 30% orkuinntaka 15 ára barnanna kemur úr fæðuflokkum sem gefa mjög lítið af vítamínum og steinefnum.
Við foreldrar getum haft mikil áhrif á fæðuval og inntöku barna okkar. Mikilvægast tel ég að vera góðar fyrirmyndir hvað þessa þætti varðar og það erum jú við foreldrar sem sjáum um innkaup inn á heimilin. Með því að hafa ávexti á borðum þar sem börnin geta gengið í þá og gott framboð af góðu grænmeti á matmálstímum, getum við stutt þau til að velja það sem er gott fyrir þau.
Einnig tel ég að það skipti miklu máli hversu mikla peninga börnin hafa á milli handanna. Ef unglingarnir hafa mikla peninga á milli handanna er líklegra að þau eyði meiru í sælgæti og gos en ella.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – greinin birtist fyrst á vefnum í maí 2007
No Comment