Börn og unglingarFjölskyldanHeimilið

Unglingadrykkja

Vandamálin verða alvarlegri því fyrr sem drykkjan byrjar

Unglingsárin eru mikill umbreytingatími og getur sett mark á allt lífsskeið einstaklingsins. Við þurfum því að styðja og vernda börnin okkar sem mest við getum á þessu viðkvæma aldursskeiði. Með því að ræða við börnin og setja þeim skýr mörk, virða útivistartíma og auka samverustundir foreldra og barna geta foreldrar unnið að forvörnum.

Ef foreldrar mynda samstöðu með öðrum foreldrum um ýmis uppeldisleg gildi, vinna þeir gegn hópþrýstingi og leggja sitt af mörkum til forvarna í sínu hverfi. Það er mikið í húfi og rannsóknir sýna að hvert ár sem börnin bíða með að byrja að drekka skiptir verulegu máli.

Foreldrum er mikið í mun að styrkja sjálfsmynd barna sinna og undirbúa þau sem best undir framtíðina og til að takast á við þau áreiti sem beinast að þeim. Áfengisauglýsingar eru ólöglegar hér á landi og með öllu óþolandi að það skuli líðast að á miklum áhorfstímum í sjónvarpinu og í heilsíðuauglýsingum dagblaðanna skulu slíkar auglýsingar fá svo mikið rými sem raun ber vitni.

Það skiptir foreldra líka máli hvernig staðið er að unglingaskemmtunum, hvaða hefðir skapast t.d. í kringum skólaböll og hvað þar fer fram. Að unglingar haldi eftirlitslaus partý, taki á leigu svokallaðar limosínur fyrir árshátíðir eða haldi nokkurs konar manndómsvíxlur með áfengi við lok samræmdra prófa, er eitthvað sem foreldrar ættu að ræða sín í milli. Áfengisauglýsingar og aðgengi unglinga að áfengi er líka eitthvað sem foreldrar geta látið til sín taka.

Foreldrasamvinna og gott bekkjarstarf eru víða í skólum og rannsóknir sýna að ávinningurinn af slíku starfi kemur fram í betri líðan unglinga, bættum námsárangri og ekki hvað síst í minna brottfalli úr námi. Það er skylda allra foreldra að gera sitt besta til að skila góðum þjóðfélagsþegnum út í samfélagið og með umhyggju, aðhaldi og eftirliti geta foreldrar lagt sitt af mörkum til forvarna. Fræðsla um skaðsemi reykinga og neyslu áfengis og vímuefna er nauðsynleg og við megum ekki sofna á verðinum.

Á fundi hjá Náum áttum hópnum sem haldinn var í tengslum við Vímuvarnarvikuna fyrir tveimur árum lýsti Sigurlína Davíðsdóttir lektor í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ þeim félagslegu þáttum sem áfengis-og vímuefnaneysla hefur á fjölskylduna og sagði að því meira sem umburðarlyndið væri gagnvart neyslunni því meiri líkur væru á unglingadrykkju. Sigurlína lagði áherslu á að því lengur sem hægt væri að fresta byrjunaraldrinum því minni lýkur væru á að unglingar lentu í erfiðleikum og að vandamálin yrðu alvarlegri því fyrr sem drykkjan byrjaði.

Hún sagði einnig að unglingar byrjuðu oft að drekka til að skemmta sér og auka gleði sína, en lítill hluti hópsins er fljótlega farinn að nota áfengi til að ráða við neikvæðar tilfinningar og vanlíðan. Séu vinirnir í drykkju er meiri hætta á að unglingurinn leiðist út í drykkju. Einnig talaði hún um nokkur hlið í þróun neyslunnar og að reykingar og bjórdrykkja leiddu yfirleitt til neyslu sterkari drykkja eða neyslu ólöglegra vímuefna.

Hættan á alkóhólisma minnkar um 14% við hvert ár sem neyslan frestast. Þeir sem eiga á hættu að byrja snemma að drekka eru börn sem leiðist fljótt, sem forðast neikvæðar afleiðingar af eigin gjörðum, geta illa beðið eftir umbun og hafa alist upp við drykkju foreldra. Oft eiga börn sem eru í neyslu sögu um afbrot, lélega tengingu við skóla, síngjarnt gildismat og stunda óvarið kynlíf, fá kynsjúkdóma eða eignast börn ung. Sigurlína ræddi ennfremur ýmis áhrif sem drykkja hefur á fjölskylduna, t.d meðvirkni, ýmiskonar vanlíðan og spennu.

 

Foreldrar! Það er mikið í húfi. Takið virkan þátt.

 

Helga Margrét Guðmundsdóttir
verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra, greinin var fyrst birt á vefnum í október 2007

Previous post

Foreldrasáttmálinn

Next post

Pössum heyrnina

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *