Vandamál og úrræði

Gersveppaóþol

Guðrún skrifaði okkur í framhaldi af umræðunni um lífsstílsbreytingu. Hún segir:

Sæl og innilega til hamingju með vefinn þinn, þetta er mjög þarft og nytsamlegt.  En mig langar svo að spyrja þig hvernig kem ég mér af stað að breyta um lífstíl, ég t.d. þekki öll þessi einkenni með gersveppaóþol, hvað á ég að gera til að koma mér af stað áður en ég borða mig til dauða og tek lyf þannig að öll líffæri gefast upp.
Virðingarfyllst, Guðrún Jóhannsdóttir.

Ég vil óska þér til hamingju Guðrún með að vera komin með löngun til að prófa þig áfram í átt að betri líðan. Það er alltaf fyrsta skrefið.

Ég ætla að byrja á því að gefa þér svar við því hvað þú þarft að hafa í huga gagnvart gersveppaóþoli. Á næstu dögum verð ég svo með smá tölu um hvernig við getum breytt um í mataræði á sem einfaldastan hátt.

Gersveppaóþol (Candidiasis)

Candida albicans er einfrumu-sveppur sem er alltaf til staðar í líkama okkar. Ef hins vegar ofvöxtur verður á þessum svepp orsakar það fjöldann allan af sjúkdómseinkennum.

Þessi einkenni geta verið: Harðlífi, niðurgangur, ristilbólgur, verkir í kviðarholi, höfuðverkir, andremma, kláði við endaþarm, getuleysi eða áhugaleysi á kynlífi, minnisleysi eða einbeitingarskortur, skapsveiflur, bólgur í blöðruhálskirtli, sár í munni, brjóstsviði, vöðva- og liðverkir, særindi í hálsi, mikil slímmyndun í nefi og/eða koki, doði í andliti eða útlimum, slæm húð, bólur, exem, nætursviti, kláðablettir, sviði í tungu, hvítir blettir á tungu og í munni, ástæðulaus þreyta, sveppasýkingar í leggöngum og/eða útferð, blöðru- og þvagrásarsviði, liðagigt, þunglyndi, kvíði, köfnunartilfinning (oföndun), hjartsláttarköst – þyngsli og verkir fyrir brjósti, svefntruflanir, flasa, bjúgsöfnun, vöðvabólga og festumein í baki og vandamál við að halda sig í réttri líkamsþyngd.

Sjúkdómseinkennin eiga það til að versna í raka eða reyk.

Athugið að ef þið eruð með 4 – 5 af ofantöldum einkennum eru líkur á að þið séuð með gersveppaóþol.

Þegar candida sveppurinn sýkir munninn kallast það munnangur eða þruska. Hægt er að misgreina þrusku sem mjólkurskán hjá ungabörnum. Þruskan getur einnig borist á bleyjusvæði barnanna og litið út sem bleyjuútbrot.

Það sem kemur gersveppaóþoli af stað getur verið mataræði sem inniheldur mikið magn unninna vara, hormónar (s.s. getnaðarvarnarpillan), inntaka sýklalyfja, þungun og inntaka steralyfja.

Mjög algengt er að fólk með gersveppaóþol þjáist einnig af fæðuofnæmi ýmis konar. Einnig er algengt að fólk sem þjáist af gersveppaóþoli þrói með sér viðkvæmni gagnvart umhverfinu, s.s. gúmmíi, sterkri lykt og tóbaki.

Ger og þar með talinn gersveppurinn, nærist á sykri. Það segir sig því sjálft að þeim mun meira sem fólk með gersveppaóþol neytir sykurs, þeim mun verri verða sjúkdómseinkennin.

Mikilvægast við að sigrast á gersveppaóþoli er að huga að mataræði sínu. Forðast þarf allan sykur, allt ger, allt hvítt mjöl og hvít hrísgrjón. Varlega þarf að fara í neyslu mjólkurvara þar sem fólk er oft með mjólkuróþol sem þjáist af gersveppaóþoli.

Best er að ákveða að hreinsa út úr mataræðinu allt sem getur aukið gersveppinn, í a.m.k. þrjár vikur. Að því búnu má prófa sig áfram með því að taka inn eina og eina matartegund og sjá til í 3 til 4 daga hvort hún kalli fram einkenni áður en prófað er að taka inn aðra matartegund.

Takið út allan sykur. Athugið að sykur gengur undir fjölmörgum nöfnum, þ.m.t. súkrósi, glúkósi, dextrósi, cornsyrop, frúktósi, sorbitól, mannitól, xybitol, laktosi, maltosi, monosaccaride, polysaccaride. Takið einnig út alla aðra sætu eins og hunang og allt sýróp.

Takið út alla ávexti. Prófið ykkur áfram eftir þrjár vikur hvort þið getið tekið inn einn og einn ávöxt. Helst súra og sem minnst sæta, s.s. græn epli.

Forðist allt ger. Athugið að ger er í ostum, sýrðum mjólkurvörum, rauðvíni, bjór, brenndu víni, súrsuðu grænmeti, ediki, alls kyns sósum og kæfum, sojasósu, unnum kjötvörum, sveppum og koffíni. Varast ber að borða afganga sem eru eldri en 24 stunda gamlir.

Takið út hvítt hveiti. Farið einnig varlega í mjölmikla fæðu, þar með taldar kartöflur.

Það sem vinnur á móti gersveppaóþoli er m.a. acidophilus, hvítlaukur, engifer og GSE (grapefruit seed extract). Gott er einnig að taka inn C vítamín, kalk, magnesíum og fitusýrur (t.d. úr hörfræolíu).

Nú orðið er hægt að fá bætiefnatöflur sem sérstaklega eru settar saman til að vinna á gersveppnum.

Hildur M. Jónsdóttir

Fleiri greinar um gersveppaóþol:

Ert þú með gersveppaóþol?

Nánar um mataræði við gersveppaóþoli

Gersveppaóþol – hvað má eiginlega borða?

Previous post

Áhrif mataræðis á flogaköst

Next post

Reynslusaga - Hildur M. Jónsdóttir

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *