Á heimilinuHeimiliðHeimilisbíllinnMengun og mengunarvarldarUmhverfið

Ætlar þú að keyra um á nagladekkjum í vetur?

Það er helst í mikilli hálku sem nagladekkin geta talist öruggari en aðrar dekkjategundir. Þó hefur rannsókn sýnt að loftbóludekk eru sambærileg nagladekkjunum hvað varðar hemlunarvegalengd á þurrum ís.

Tíðarfar á Íslandi hefur verið að breytast mikið á síðustu árum og í Reykjavík fækkar stöðugt þeim dögum þar sem vetrarríki er mikið. Einnig hafa sveitarfélögin á Stór-Reykjavíkursvæðinu staðið sig sífellt betur í að hreinsa og salta götur.

Það er staðreynd að nagladekkin valda gífurlegri mengun í formi svifryks, en þrátt fyrir það hafa um 60 – 70% ökutækja verið á nagladekkjum í Reykjavík yfir vetrarmánuðina, síðustu ár.

Við erum farin að kannast vel við gulleita mengunarskýjið sem liggur yfir borginni á kyrrum vetrardögum og stafar þessi mengun fyrst og fremst af svifryki. Um 75% alls svifryks kemur frá umferð farartækja og 55% svifryksins stafar af uppspændu malbiki sem notkun nagladekkja veldur að mestu leyti.

Sænsk rannsókn staðfestir að venjuleg fólksbifreið sem ekur á nagladekkjum rífur upp 27 grömm af vegefni á hvern ekinn kílómeter.

Svifryk veldur miklu heilsutjóni og virðist aukinn styrkur þess í andrúmslofti leiða til aukinnar tíðni ótímabærra dauðsfalla. Mikið svifryk getur meðal annars leitt til bronkítis, hjarta- og æðasjúkdóma og það getur valdið astmaköstum.

Fyrir utan mengunina þá valda nagladekkin gífurlegu sliti á götum sem kostar okkur miklar fjárhæðir á ári. Auk þess leiðir notkun nagladekkja til þess að hjólför myndast á aðalökuleiðum í borginni, seinni part vetrar og þau geta skapað hættu og haft áhrif á aksturslag ökutækja.

Erlendis hafa talsverðar rannsóknir farið fram til að kanna í hve miklu mæli nagladekk séu öruggari umfram önnur dekk. Meginniðurstöðurnar sýna að aðstæður þar sem nagladekk hafa kosti umfram allar aðrar tegundir naglalausra dekkja eru fremur sjaldgæfar og að slysatíðni hefur ekki aukist svo nokkru nemi eftir að nagladekk hafa verið bönnuð.

Einn þáttur enn sem þarf að hafa í huga varðandi nagladekkin er sá að hávaði sem framkallast af fólksbíl á nagladekkjum er 4 desibelum eða 2,5 sinnum meiri en af samskonar bíl á sama hraða, með sambærilegum ónegldum dekkjum.

Þegar allt kemur til alls og á eftir því sem á undan er sagt má teljast harla vafasamt að setja nagladekk undir bílinn fyrir veturinn ef viðkomandi ekur aðallega innanbæjar yfir vetrarmánuðina.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Loftbóludekk

Next post

Flokkun garðaúrgangs

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.