Á heimilinuHeimiliðHeimilisbíllinnMengun og mengunarvarldarUmhverfið

Loftbóludekk

Óskar hjá Gúmmívinnslunni á Akureyri sendi okkur eftirfarandi upplýsingar um loftbóludekkin, eftir að hafa lesið greinina okkar um Nagladekkin (lesa hér)

Til hamingju með gott framtak. Var að sjálfsögðu ánægður að sjá umfjöllun um “loftbóludekk” á þessum vef og sendi ykkur hér með grein sem birtast mun í Akureyrarblaði nú á næstu dögum ykkur til upplýsinga:

  • Loftbóludekkin virka vel.
  • Minni mengun – meira öryggi

Fyrir nokkrum árum hóf Gúmmívinnslan á Akureyri að flytja inn loftbóludekk frá Bridgestone, sem nýjan kost fyrir vetrarakstur. Í byrjun var þessari gerð hjólbarða tekið frekar fálega, en reynslan af þeim hefur verið góð og þeir hafa smám saman verið að festa rætur hér á landi.

Óskar Óskarsson, framkvæmdastjóri Gúmmívinnslunnar, segir ekki óeðlilegt að töluverðan tíma taki að sannfæra bílaeigendur um gildi loftbóludekkjanna, enda hafi nagladekkin lengi haft afgerandi stöðu á markaðnum. “En það er staðreynd að fleiri og fleiri vilja prófa loftbóludekkin. Ég held að ég geti fullyrt að í haust settu tveir af hverjum þremur sem komu í Gúmmívinnsluna í hjólbarðaskipti og þurftu ný dekk loftbóludekk undir hjá sér. Og nær undantekningalaust hafa bílaeigendur farið mjög lofsamlegum orðum um reynsluna af þessum dekkjum og segjast ekki fara aftur á naglana,” segir Óskar, en Bridgestone hefur einkaleyfi á framleiðslu loftbóludekkja.

 

Samanburðarrannsókn

“Í samanburðarrannsókn sem gerð var fyrir sunnan í haust af hlutlausum aðilum, þar sem bornir voru saman eiginleikar loftbóludekkja, harðkornadekkja, heilsársdekkja og nagladekkja við hinar ýmsu aðstæður, komu loftbóludekkin mjög vel út og raunar best þegar á heildina er litið. Þessar niðurstöður staðfestu það sem notendur loftbóludekkjanna hafa fullyrt, að þau henta mjög vel við íslenskar vetraraðstæður,” segir Óskar Það var réttlætanlegt hér áður fyrr að nota nagladekk því þá höfðu menn ekki annan valkost. Í dag höfum við annan og að mínu mati betri valkost. Þegar þú ekur á auðu malbiki þá rýrna gæði nagladekkja mjög hratt og þá verður virkni þeirra engan veginn þau sömu og menn lögðu upp með í upphafi. Það er líka rétt að geta þess að það eru mun meiri líkur á því að missa loft úr nagladekki en öðrum dekkjum.

Undanfarnar vikur hefur Reykjavíkurborg hvatt borgarbúa til þess að draga úr notkun nagladekkja, sem lið í því að minnka svifryksmengun í borginni en eins og allir vita þá er svifryksmengun eitt af stóru heilbrigðisvandamálunum í dag.

Margir kostir

Óskar segir kosti loftbóludekkjanna margvíslega. Til dæmis hafi þau mikið veggrip, hemlunarvegalengdin sé stutt, þau sé unnt að nota allt árið, þau séu hljóðlátari en nagladekkin og þau slíti malbikinu mun minna en nagladekkin.
En hvernig virka loftbóludekkin? Óskar segir að í fyrsta lagi þá sé mun minna nylon í þessum dekkjum og því séu þau í eðli sínu bæði mýkri og stamari en önnur dekk. Til viðbótar þá hafa dekkin þann eiginleika að þegar dekkið rúllar eftir yfirborði vegarins sjúgi loftbólurnar í dekkinu upp vatn úr ísnum og snjónum. Við það verður yfirborð vegarins eða götunnar þurrara og stamara. Þá mynda loftbólurnar skarpar brúnir við ísinn og snjóinn. Dekkið er mjúkt og fylgir því öllum misfellum vel eftir og þannig verður snertiflöturinn stór. Annars ráðlegg ég öllum að prófa dekkin og dæma svo hver fyrir sig.

kv,
Óskar

Höfundur: Óskar Óskarsson, greinin birtist fyrst á vefnum í nóvember 2006

Previous post

Skaðleg efni í nýjum bifreiðum

Next post

Ætlar þú að keyra um á nagladekkjum í vetur?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *