Mengun og mengunarvarldarUmhverfið

Reykjavíkurborg bregst við mikilli svifryksmengun

Síðustu daga hefur verið mikil svifryksmengun í Reykjavík vegna tíðarfarsins. Þegar miklar stillur eru eins og nú og engin úrkoma, fer mengunin í Reykjavík upp úr öllu valdi og fer hún einatt yfir heilsuverndarmörk.

Reykjavíkurborg hefur brugðist skjótt við til að vinna á móti þessari mengun. Dreift hefur verið sérstakri saltblöndu á göturnar til að rykbinda þær. Einnig hafa götur verið hreinsaðar þegar því hefur verið við komið, en ekki er hægt að hreinsa göturnar þegar frost er.

Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir áróðursherferð í allan vetur gegn notkun nagladekkja og hefur það skilað sér í aukinni umræðu um þau mál og verður væntanlega hægt að merkja árangur af þessu starfi næsta haust.

Á vef Reykjavíkurborgar er að finna ráðleggingar til borgarbúa um hvernig þeir geti brugðist við á þeim dögum sem mesta mengunin er. Þar er talað um að góðir valkostir í samgöngum á þessum dögum er að ganga, hjóla, fara í strætó, verða samferða öðrum í bíl eða vera heima þessa daga og nota rafræn sambönd og bíða með erindi sem þarfnast bílferða.

Menntaráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í liðinni viku að efna til átaks gegn loftmengun í kringum grunnskóla borgarinnar. Mælingar á mengun í kringum skóla í borginni hafa sýnt mikla mengun og þykir full ástæða til að bregðast við.

Tillögur Menntaráðs til að stemma stigu við svifryks- og loftmengun í kringum skóla borgarinnar eru:

  • að fá stjórnendur skólanna til að hvetja nemendur til að ganga í skólann
  • að hvetja foreldra yngri barna að fylgja börnunum fótgangandi í skólann eða sammælast um akstur í og úr skóla
  • að hvetja ökumenn til að láta bíla ekki ganga í lausagangi
  • að síðustu var lögð fram sú tillaga að setja inn í skóladagatalið tvo umhverfisdaga til að efla vitundarvakningu gagnvart þessum málum.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í febrúar 2007

Previous post

Plast í náttúrunni

Next post

Búfé veldur hlýnun andrúmslofts

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *