Heilsa

Beinþynning

Beinþynning er þegar beinin tapa kalki, þá minnkar styrkur beinanna og mun hættara er á beinbrotum. Mun algengara er að beinþynning verði hjá konum en körlum og sjaldgæft er að beinþynning láti á sér kræla fyrr en um og eftir 55 ára aldur. Hægt er að draga úr áhættu á að þróa beinþynningu með heilsusamlegu líferni, reglulegri hreyfingu og næringarríku mataræði. Kalk og D-vítamín eru nauðsynleg bætiefni til uppbyggingar beinanna.

Sjaldan fylgja einkenni beinþynningu og því hefur þynning oft átt sér stað án vitundar einstaklingsins og hann því algjörlega ómeðvitaður um ástand beina sinna. Hægt er að mæla beinþéttnina með beinþéttnimælingu, sem er ákveðin gerð röntgenrannsóknar, kölluð DXA.

En er hægt að sjá fyrir um þróun á beinþynningu í reglulegu eftirliti hjá tannlækninum? Breskir rannsakendur telja sig hafa fundið upp tölvuforrit sem að getur lesið af tannlæknaröntgenmyndum og sagt til um hvort að um rýrnun á beinþéttni sé að ræða í neðri kjálkabeinum, sem gæfi þá til kynna að um beinþynningu gæti verið að ræða.

Þessi lausn væri mjög einföld, ódýr og gæti leitt til þess að fólk vissi fyrr en í óefni væri komið, hvernig ástand beina þeirra væri. Ef að röntgenmyndirnar frá reglulegu tannlæknaferðunum sýndu merki um breytingu eða rýrnun, væri hægt að ráðleggja viðkomandi að fara í dýrari rannsóknir eins og beinþéttnimælingu.

Breska rannsóknin var unnin úr röntgenmyndum beina 652 evrópskra kvenna á aldrinum 45-70 ára. Allar konurnar fóru í DXA beinþéttnimælingu, ásamt því að fara í hefðbundnar röntgenmyndatökur hjá tannlækni, sem að sýndu allan kjálkann.

Sýndu niðurstöðurnar að beinþynning var farin að myndast hjá 140 þessara kvenna samkvæmt beinþéttnimælingunni og höfðu meira en helmingur tilfallanna áður greinst á hefðbundnu tannlæknaröntgenmyndunum. Dr. Hugh Devlin, frá háskólanum í Manchester, sem stýrði þessari rannsókn sagði að ígrunda þyrfti þessa tækni vel og kanna viðhorf bæði tannlæknanna sjálfra og þeirra skjólstæðinga hvort að grundvöllur væri fyrir því og vilji, að hafa þennan valkost í boði.

Hann telur bæði auðvelt og ódýrt að koma þessum hugbúnaði fyrir í röntgenvélum tannstofanna og mikill sparnaður væri í húfi vegna verðmunar á venjulegum röntgenrannsóknum og svo á DXA röntgenrannsóknum. Einnig væru mun meiri líkur á að beinþynning uppgötvaðist hjá einstaklingum á fyrstu stigum þar sem að flestir færu reglulega í eftirlit hjá tannlæknum.

Previous post

Augun

Next post

Beinþynning og D vítamín

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *