JurtirMataræði

Blöðrubólga og jurtir

Í framhaldi af grein Blöðrubólga og hómópatía, koma hér nokkrar jurtir og annað sem að geta einnig hjálpað mikið þegar um blöðrubólgu og aðra þvagfærakvilla er að ræða.

Trönuber geta komið í veg fyrir að bakteríur festi sig við þvagblöðruvegginn. Til að bakteríur geti sýkt og komið af stað bólgum, þurfa þær fyrst að festa sig við blöðruvegginn. Ef komið er í veg fyrir þetta ferli eru minni líkur á sýkingu. Því er trönuberjasafi eitt af helstu náttúrulækningameðulum gegn blöðrubólgu og öðrum þvagfærasýkingum. Algengast er að drekka safann eða nota hylki með þykkni úr safanum.

Sólber og sólberjasafi hafa mjög sambærilega virkni og trönuber og trönuberjasafi (sjá grein Sólber og blöðrubólga)

Sólhattur (Echinacea) Ákveðin mjög virk efni í sólhattinum styrkja ónæmiskerfið og hjálpa þannig líkamanum til að verjast sýkingum og vinna á þeim. En sólhatturinn gerir meira, í honum eru einnig efni sem beinlínis ráðast á sýkla og eyða þeim. Best er að taka 10 dropa (Echinacea Tonic) eða 1 töflu (Echinaforce) á klukkutíma fresti í nokkra daga eða lengur ef með þarf.

Sortulyng (Uva ursi) Í þessari jurt er m.a. virka efnið arbútín, sem er sýklaeyðandi efni. Sortulyng er sérstaklega áhrifaríkt gegn E.coli bakteríunni. Rannsóknir hafa verið gerðar, sem sýnt hafa að regluleg notkun sortulyngs geti komið í veg fyrir blöðrubólgu. Þó þarf alltaf að gæta þess að taka ekki of mikið af sortulyngi, því það getur haft aukaverkanir í för með sér, aðeins 15 g af þurrkuðum laufum geta valdið  flökurleika og uppköstum. Börnum, ófrískum konum og konum með barn á brjósti er ekki ráðlagt að nota sortulyng.

Gullhrís (Solidago virgaurea) örvar starfsemi nýrnanna, hreinsar þvagleiðara og eykur þar með vökvalosun. Gott sem te.

Goldenseal (Hydrastis canadensis) inniheldur efni sem vinnur á bakteríum. Þessi jurt hefur reynst sérstaklega vel gegn algengustu sýklum sem valda blöðrubólgu, þ.e. E.coli bakteríum og Proteus gerlum.

Acidophilus. Mjólkursýrugerlar t.d. Lactobacillus acidophilus, Bifidobacterium bifidum og Lactobacillus bulgaricus byggja upp réttan gerlagróður í meltingarfærum. Bæði er hægt að taka þessar bakteríur inn í hylkjum og einnig eru þær í t.d. AB-mjólk, en hylkin eru margfalt sterkari.

C-vítamín. Oft er fólki ráðlagt að taka allt að 5000 mg af C-vítamíni daglega gegn bráðablöðrubólgu. Sýnt hefur verið fram á að C-vítamín hamlar vöxt E.coli auk þess sem það sýrir þvagið og skapar þannig óhentugri aðstæður fyrir ákveðnar bakteríur. Ekki ætti að nota svo stóra skammta í langan tíma.

Grape seeds extract hefur verið kallað náttúrulegt sýklalyf. Það ræðst gegn bakteríusýkingum, sveppasýkingum og jafnvel er talað um að það ráði við sumar veirusýkingar sem pensilín gerir ekki.

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Blöðrubólga

Next post

Blöðruhálskirtilsvandamál

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *