UmhverfiðUmhverfisvernd

Eldsneytisframleiðsla og kjötneysla

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þeim verðhækkunum sem tröllríða heiminum í dag en þær hafa slæmar afleiðingum fyrir alla jarðarbúa. Fyrir okkur Íslendinga hefur þetta áhrif til hækkunar á verðbólgu sem var þó nógu há fyrir.

En öllu alvarlegra er þó fyrir fátækar þjóðir heims að mæta þessum miklu verðhækkunum á matvöru og er útlit fyrir gríðarlegan vöxt á þeim fjölda fólks sem býr við hungursneið.

Aðalástæðan fyrir þessari stöðu eru tvær, aukin eftirspurn eftir eldsneyti og aukin neysla og eftirspurn eftir kjöti. Þessi mikla aukning kemur aðallega frá Asíu þar sem fólk færist stöðugt nær því að taka upp þá lifnaðarhætti sem við Vesturlandabúar höfum tileinkað okkur um langan tíma. Æ algengara er að fólk keyri um á einkabílum og kjötneysla hefur færst gríðarlega í vöxt þar á síðustu árum.

Þessi aukna eftirspurn eftir kjöti og eldsneyti kallar á aukna notkun á ræktunarlandi. Til að mæta aukinni eftirspurn eftir eldsneyti á tímum hækkunar olíuverðs vegna minnkandi framboðs á olíu, færist mjög í vöxt að ræktunarland er tekið undir ræktun á hráefni til framleiðslu á lífrænu eldsneyti. Og á sama tíma er stöðugt meira magn ræktunarlands nýtt undir framleiðslu á fóðri fyrir skepnur, til að mæta aukinni eftirspurn eftir kjöti.

Ég las það einhvern tíma að það landsvæði sem þyrfti til að búa til fóður fyrir einn nautgrip, nægði til að framleiða fæðu fyrir eitt hundrað manns.

Á síðasta ári hefur hækkun á heimsmarkaðsverði á grunnfæðutegundum tvöfaldast. Hveiti hefur hækkað um 130%, sojabaunir hafa hækkað um 87% og verð á hrísgrjónum fór upp um 74%. Þessar verðhækkanir eru rétt upphafið af ferli sem ekki sér fyrir endann á.

Og eins og ég gat um hér að ofan, þá mun fjöldi fólks líða fyrir þetta, þar sem æ algengara verður að fólk eigi ekki nægt fé fyrir lífsnauðsynjum og muni svelta ef ekki kemur til aukin aðstoð frá þjóðum sem búa við betri lífskjör.

Önnur afleiðing vegna þessara hækkana er þegar farin að koma í ljós, en það er aukinn órói og átök vegna fæðuskorts. Þannig að það lítur út fyrir að stríðsátök í heiminum munu fara vaxandi vegna þessa slæma ástands.

Og í raun má segja að undirrótin sé lífsstíll þeirra þjóða sem búa við allsnægtir. Þannig að nærtækasta úrræðið til lausnar þessa mikla vanda, væri að jarðarbúar minnkuðu eldsneytisnotkun og kjötneyslu. En það er vandséð hvernig hægt er að ná slíkum markmiðum fram.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í apríl 2008

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Sóun Íslendinga

Next post

Fair Trade vörur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *