UmhverfiðUmhverfisvernd

Sóun Íslendinga

Í Kastljósþætti í vikunni var umfjöllun um könnun sem gerð var um sóun Íslendinga á verðmætum og í hvaða þáttum hún helst liggur. Brynja Þorgeirsdóttir ræddi þar við Einar Már Þórðarsson stjórnmálafræðing sem var einn þeirra sem stóð að þessari rannsókn og Rögnu Halldórsdóttur, starfsmann hjá Sorpu.

  • Fram kom að Íslendingar henda verðmætum sem þeir hafa ekkert eða lítið sem ekkert notað, fyrir um 13 milljarða á ári. Þetta eru gríðarlega há upphæð og mætti gera sér í hugarlund að almenningur gæti nýtt þessar fjárhæðir á farsælli hátt. Þetta gerir um 50.000 krónur á hvert mannsbarn á landinu.
  • Um helmingur heimila í landinu henda mat einu sinni eða oftar í viku hverri. Það má því segja að 6 – 8% af allri innkeyptri matvöru til heimilisins, lendi beint í ruslinu. Það gerir um 4 milljarða á ári. Það er margt sem er hægt að gera til að vinna gegn þessari sóun. Besta ráðið er að fara oftar að versla og kaupa minna í einu. Þá er minni hætta á að við séum að versla einhvern óþarfa sem skemmist í ísskápnum og eins kaupum við minna magn, sem eykur líkurnar á að við notum vöruna áður en hún skemmist.
  • Um 25% þjóðarinnar hafði keypt vörur sem aldrei var notuð. Þar var mestu eytt í ýmsa afþreyingu og rafmagnstæki.
  • Í könnuninni var fólk spurt um það hvort það hefði keypt föt eða skó á útsölu sem það hefði eingöngu notað einu sinni til tvisvar eða hreint ekki neitt og var um helmingur fólks sem svaraði því játandi. Þar voru konur í miklum meirihluta eða um 70% kvenna.
  • Karlar eyða þó hærri upphæðum þegar þeir fara að versla og þeir eyða jafnframt í dýrari hluti. Þegar spurt var hvort fólk hefði keypt raftæki eða tölvubúnað sem hefði verið lítið sem ekkert notað svöruðu um 25% því játandi og voru karlmenn þar í meirihluta.
  • Áhugavert var að sjá að lítill munur var á milli kynja þegar spurt var um hvort fólk hefði keypt sér föt sem það hefði þurft að léttast til að geta passað í, en hefði svo aldrei getað notað og það átti við um fimmtung þeirra sem þátt tóku í könnuninni.
  • Það sem lýsir kannski best sóuninni voru svörin við spurningunni um það hvort fólk hefði keypt eitthvað sem það vissi að það hefði lítil sem engin not fyrir, eingöngu af því að það var á svo góðu verði. Þar svaraði þriðjungur, eða 32% fólks því játandi. Það er erfitt að sjá fyrir sér sparnaðinn í því að versla eitthvað ódýrt, þegar maður hefur ekki þörf fyrir það. Það má líkja því við það að henda peningunum út um gluggann.

Í máli Rögnu Halldórsdóttur frá Sorpu kom fram að okkur hefur ítrekað mistekist í að ná fram þeim markmiðum sem hafa verið sett til að reyna að ná niður því magni úrgangs sem er hent. Hún sagði að þau á Sorpu sæju þess vel merki við hvaða velmegun þjóðin hefur búið á síðustu árum og sem dæmi nefndi hún að ef einhvers staðar er auglýst tilboð á flatskjáum, þá steyma inn eldri sjónvarpstækin í gáma Sorpu, sem eru í góðu lagi og lítil ástæða til að henda.

Að lokum kom fram hjá þeim þremenningum að áhyggjuefni er hversu lítill hluti ungs fólks, sýni endurvinnslu og flokkun áhuga og er yngra fólkið mun óduglegra við að flokka og skila til endurvinnslu, þrátt fyrir að það sé fólkið sem hefur alist upp við þessi hugtök.

Við skulum vona að það þurfi ekki allsherjar kreppu og neyð, til að við lærum að fara vel með verðmæti og lærum að meta það sem við höfum og eigum.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í maí 2008

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Getum við dregið úr plastnotkun?

Next post

Eldsneytisframleiðsla og kjötneysla

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *