Greinar um hreyfinguHreyfing

Hversu mikil hreyfing er nóg?

Nú fer í hönd tími hátíða, matarboða, hvíldar og gleði. Þetta er kannski ekki akkúrat tíminn sem við erum mikið að huga að hreyfingu en flestir ætla sennilega í einhvers konar átak í janúar.

En afhverju að bíða? Það er enginn að tala um að þú þurfir að fara í ræktina í tvær klukkustundir á dag. Regluleg hreyfing er það besta sem við gerum fyrir okkur og það sem er oft miðað við er að lágmarki 30 mínútna rösk hreyfing daglega til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Til að halda þyngdinni í skefjum er gott að miða við 45 til 60 mínútur.

Og það sem við þurfum að hafa í huga er að margt getur talið inn í þessar 30 – 60 mínútur. Ef við getum ekki tekið frá hálftíma á dag þar sem við markvisst sinnum þessari þörf okkar vegna heilsu okkar og heilbrigðis, þá er hægt að deila þessum tíma niður í t.d. tvær eða þrjár styttri lotur.

Það er svo margt sem við getum gert til að fylla upp í þennan kvóta. Við getum labbað í vinnuna, skólann, útí búð eða tekið okkur röskann göngutúr í hádeginu. Við getum valið að ganga rösklega upp stigana í stað þess að taka lyftuna. Við getum lagt bílnum í nokkurri fjarlægð frá áfangastaðnum og gengið restina. Það er með ólíkindum hvað fólk getur t.d. hringsólað á bílastæðinu við Kringluna í lengri tíma til að finna stæði í stað þess að leggja aftan við Hús verslunarinnar.

Röskleg heimilisþrif geta talið inn í þennan tíma eða þrif á bílnum. Fátt eitt finnst mér betra en að stinga mér í laugina eftir langan vinnudag. Þá er um að gera að synda nokkrar ferðir auk þess að flatmaga í heita pottinum. Verðum enn hressari fyrir vikið.

Það er með ólíkindum hvað foreldrar í dag eru duglegir við að keyra börnin alla skapaða hluti. Þar erum við nú ekki að setja gott fordæmi. Hvernig væri að labba með yngri börnin á íþróttaæfingarnar, í danstímana eða til annarra tómstundaiðkana.

Svo er að huga að því hvernig við notum frítímann. Flestir eiga frí tvo daga í viku. Þá er upplagt að fara í lengri göngur, fara á skauta með fjölskylduna, skella sér í sund og svo auðvitað á skíði þær fáu helgar sem til þess bjóðast.

Nú fer frítími í hönd yfir jól og áramót. Hvernig væri að setja inn á planið á milli jólaboða og jólatrésfagnaða, samverustundir sem einkennast af útiveru og hreyfingu.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Æfingar fyrir skrifstofufólk - Liðleikaþjálfun

Next post

Rétt líkamsbeiting

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *