MataræðiÝmis ráð

Hvítur sykur eða Hrásykur?

Þetta er ein af þessum sígildu spurningum sem ég fæ oft og mig langar að deila með ykkur mínum hugleiðingum.

Mikið hefur verið skeggrætt og skrafað um sykurinn í fjölmiðlum, saumaklúbbum, heitum pottum og bara alls staðar þar sem fólk kemur saman. Flestir virðast hafa skoðun á þessari fæðutegund og líklega stafar það af því hvað við notum ofboðslega mikið af sykri. Sykur leynist mjög víða og þegar fólk ákveður að fjarlægja sykur úr mataræðinu þá verður því oft mikið um þegar það fer að lesa á innihaldslýsingar matvæla.

En skoðum aðeins málið.
Sykur er unnin úr sykurreyr. Það fer svo eftir því hve mikið þessi sykur er unnin hvað hann kallast.

Rapadura hrásykurinn er sá sem er minnst unninn og inniheldur mest af vítamínum, steinefnum og snefilefnum. Hann inniheldur meðal annars þónokkuð mikið kalk (110 mg/pr 100 gr), magnesíum (100mg), kalíum (1000mg), fosfór (100 mg) og A vítamín (allt að 1200 IU). Einnig inniheldur hann örlítið af nokkrum b vítamínanna. Rapadura er mjög bragðmikill og hefur sterkan karamellukeim. Mér finnst hann ofboðslega góður í bakstur og það þarf jafnvel minna af honum en venjulegum hvítum sykri.

Annar hrásykur s.s. Demerara og fleiri eru svo aðeins meira unnir, meira kristallaðir og líkari venjulegum sykri hvað bragð varðar. Þær tegundir innihalda líka aðeins minna af vítamínum og steinefnum en Rapadura.

Hvítur sykur er svo alveg hinn endinn á spítunni, hann er mikið unnin og gjörsamlega snauður af öllu góðu en inniheldur nóg af gagnslausum hitaeiningum. Þegar hvítur sykur er unninn eru notuð ýmis óspennandi efni og klárt að þau eru ekkert sérlega æskileg til manneldis. Þar má telja fosfórsýru, brennisteinsoxíð og maurasýru. Hvítur sykur hefur því í raun engan nærandi tilgang, hann er bara bragðgóður.

Hrásykur aftur á móti inniheldur þessi fyrrtöldu vítamín og steinefni sem nýtast líkamanum, hefur ekki verið hvíttaður með misgóðum meðulum, ásamt því að vera bragðgóður. Það er klárlega betra ekki satt? Óumdeilanlegt myndi ég segja ef ég á að vera alveg einlæg.

Margir tala um að þeim líði betur eftir að hafa borðað hrásykur en hvítan sykur. Ég hef í mínu starfi talað við hundruði einstaklinga sem halda því fram. Aðrir segjast engan mun finna. Þetta er eins og með margt annað varðandi fæðu, að við erum misjöfn og bregðumst ólíkt við hinum ýmsu fæðutegundum. Því ekki að sleppa hvítum sykri ef hann fer illa í okkur? Því ekki að borða frekar hrásykur ef okkur líður betur af honum? Mér finnst þetta óskaplega rökrétt!

Það er hinsvegar óumdeilt að hrásykur ruglar blóðsykursjafnvægi líkamans, sem og hvíti sykurinn. Hann hentar því heldur ekki þeim sem eru sykursjúkir eða vilja taka allan sykur út úr sínu mataræði. Þá hentar aftur á móti Stevía (sjá hér) betur.

Með sykursætum heilsukveðjum,

Inga næringarþerapisti.

Previous post

Nokkur góð ráð fyrir meltingu um jól og aðventu

Next post

Hollusta í baksturinn

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *