FæðubótarefniMataræði

Kalíum (Potassium)

Steinefnið kalíum gegnir nokkrum mikilvægum hlutverkum í líkama okkar. Það heldur blóðþrýstingnum og vökvamagninu í jafnvægi, stuðlar að réttri virkni vöðva og að frumur líkamans starfi rétt.

Kalíum starfar ekki eitt og sér í líkamanum, heldur í samvinnu við natríum, kalk og magnesíum. Það þarf að vera jafnvægi á milli þessara fjögurra steinefna til að þau starfi rétt og ofgnótt af einu getur leitt til ónægs magns af öðru. Best er að fá þessi steinefni í gegnum fæðuna, en séu þau tekin inn sem bætiefni skal gæta þess að taka inn rétt magn, því það er hægt að innbyrða of mikið af þeim.

Það eru nokkrir þættir sem geta leitt til skorts á kalíum. Neysla mjög unninnar matvöru og einhæft mataræði getur orsakað kalíumskort. Óhófleg neysla lakkríss veldur kalíumskorti og hafa þarf í huga að lakkrís er stundum notaður sem lyf og þeir sem það gera verða að gæta að kalíummagninu. Ýmiss konar lyf draga úr kalíummagni líkamans, svo sem þvagræsi- og laxerandi lyf, cortesone, asprín, hjartalyf, sterar og sum lyf við lifrarsjúkdómum.

Kalíumskortur getur leitt til kvíða, pirrings, reiði og þunglyndis. Hann getur valdið svefnleysi, harðlífi, nýrnasteinum og of háu sýrustigi líkamans. Einnig getur hann valdið bjúgmyndun og þar af leiðandi höfuðverk, sársauka í augum, mikilli streitu og þyngdaraukningu hjá þeim sem eru með skjaldkirtilssjúkdóma. Þar sem kalíum er geymt í vöðvunum og vinnur með þeim, getur skorturinn leitt til vöðvakrampa, stirðleika, vöðvaþreytu og óróleika í vöðvum.

Nægileg neysla kalíums getur unnið gegn hjartasjúkdómum, hjartaáfalli, blóðsykurskorti og offitu.

Sumir telja að mikil saltneysla valdi hækkandi kalíummagni í líkamanum, þó eru þær upplýsingar óljósar og fólk sem aldrei neytir salts reynist oft með hátt magn kalíums. Það er samt ljóst að nokkur atriði geta ýtt undir kalíummagnið, það eru hátt aldosteron hormón sem kemur fram við streitu eða reiði, eitraðar málmtegundir, sink- og magnesíum skortur, auk saltneyslu.

Besta leiðin til að innbyrgða kalíum er í gegnum fæðu, þó auðvitað megi taka það inn sem bætiefni. Nokkrar fæðutegundir eru ríkar af kalíum eins og bananar, kartöflur með hýði, avókadó, sveskjur, appelsínur, ferskjur, tómatar, rúsínur, ætiþistlar, spínat, sólblómafræ, möndlur, cantaloupe melónur, lax og kjúklingur.

Eðlilegt er að innbyrgða a.m.k. 4700 mg af kalíum á dag en ef þú neytir natríumríkrar fæðu þarftu að auka skammtinn af því. Eiturverkanir vegna ofneyslu geta komið fram sé 18000 mg neytt á dag en það getur valdið hjartastöðvun. Mjög litlar líkur eru á að einstaklingi takist að innbyrgða slíkt magn kalíums.

Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Magnesíum

Next post

Ginkgo Biloba

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *