MataræðiUppskriftirÝmis ráð

Móðir náttúra

Pistill frá Sollu

Hollt og gott í hádeginu eða bara allan daginn

Ég var spurð að því um daginn hvaða kokkur hefði haft mest áhrif á mig og mína eldamennsku. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um: Kalli bróðir. Hann fór að læra kokkinn eftir stúdentspróf og var að vinna á sumrin upp í Kerlingarfjöllum að elda oní námskeiðsgesti skíðaskólans. Þar byrjuðum við að vinna saman í eldhúsi. Maturinn hjá honum var einstaklega góður og man ég eftir að hafa spurt hann alveg beint frá hjartanu: “Kalli af hverju ert þú ekki í íslenska kokkalandsliðinu?” Mér fannst enginn elda betri mat en hann.

Síðan liðu árin og hann kom víða við bæði hérlendis og erlendis að elda oní fólk á hinum ýmsu veitingastöðum. Hann kom síðan að vinna með mér á Grænum Kosti og er það einn sá allra skemmtilegasti tími sem ég hef átt í eldhúsi, á Kostinum með Kalla bróður. Fyrir um 5 árum stofnaði hann eigið fyrirtæki, Móðir Náttúra, með konunni sinni henni Valentínu sem líka var að vinna með okkur á Kostinum. Enn þann dag í dag finnst mér Kalli vera uppáhalds kokkurinn minn. Margir geta eldað góðan mat sérstaklega fyrir fjölskylduna eða vinahópinn. En það eru færri sem geta eldað jafn góðan mat fyrir 1 og fyrir 1000 manns. Það er hæfileiki sem bróðir minn hefur. Enda nýtir hann sér það og sérhæfir sig í að elda ótrúlega góða grænmetisrétti sem hægt er að kaupa í flestum matvöruverslunum landsins.

Mikið af starfsfólki mötuneyta út um allan bæ er að borða girnilegan grænmetismat frá Kalla bróður án þess að vita það, því hjá Móður Náttúru er hægt að kaupa grænmetispottrétti og buff í kilóavís sem fjöldinn allur af mötuneytum nýtir sér, til að koma til móts við kröfu starfsfólksins um fjölbreytt og heilsusamlegt fæði. Það sama gildir um skóla og leikskóla enda erum við sífellt að verða meðvitaðri um hvaða áhrif gott mataræði hefur á kroppinn okkar og kollinn.

Og núna í “kreppunni” er Móðir náttúra að bjóða upp á frábæra nýjung. Tilbúna matarbakka í hádeginu fyrir lítil og stór fyrirtæki. Ég var fyrir tilviljun stödd á fundi út í bæ þar sem boðið var upp á ótrúlega góðar grænmetisbollur með ítalskri sósu. Ég fór og þakkaði matseljunni sérstaklega fyrir frábæran mat eftir fundinn. Hún sagðist því miður ekkert hafa átt í þessum mat, hann hefði verið keyptur hjá æskuvini sonar hennar og konunni hans sem væru að selja alls konar sniðugan heilsumat…….

Ég hvet ykkur til að kíkja inn á heimasíðuna þeirra, en þar er að finna fjöldan allan af uppskriftum og upplýsingum um matinn þeirra ásamt því að þar getið þið skoðað matseðil dagsins 2 vikur fram í tímann.
Ég bað Kalla að gefa mér nokkrar uppskriftir og þær koma hér á eftir.
Gangi ykkur sem allra best
Solla

Gulrótasúpa með engifer og kóríanderrjóma

Pönnubrauð 4 stk

Hummus

Dukka

Previous post

Hollusta í baksturinn

Next post

Dísætt morgunkorn

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.