FæðuóþolMataræði

Nánar um mataræði við gersveppaóþoli

Ragna sendi okkur fyrirspurn:

Ég las greinina ykkar um ” Gersveppaóþol ” og langar að vita enn frekar hvaða vörur á ekki að nota/neyta fyrir utan hvítt hveiti og sykur og eins hvaða vörur á að kaupa/neyta. Ég er heimavinnandi með barn og hef lítinn tíma fyrir sjálfa mig en langar að breyta lífsstílnum hjá mér vegna krónísks hósta, slímmyndunar, stoðkerfi slæmt og yfirþyngdar.

Sæl Ragna og takk fyrir að hafa samband.

Þú virðist geta tengt þig við einkennin á gersveppaóþoli. Einnig talar þú um þennan króníska hósta og mikla slímmyndun. Ég gæti best trúað að þú sért að eiga við mun meira fæðuóþol heldur en eingöngu gersveppaóþolið og ráðlegg ég þér að fara í tíma til næringarþerapista til að koma þér af stað. Þú segir að tími sé ekki eitthvað sem þú eigir nóg af og þ.a.l. er oft gott að hafa stuðning þegar maður er að þreifa sig áfram. Einnig getur verið gott fyrir þig að fara í fæðuóþolsgreiningu en þó nokkrir meðferðaraðilar sem eru skráðir hér í Heilsubankanum hafa yfir mælingartækjum að ráða.

Fyrir utan hvítt hveiti, ger og sykur ráðlegg ég þér að taka út allar mjólkurvörur þar sem þær geta aukið mjög á slímmyndun. Í stað mjólkurvara bendi ég á soyavörur og vörur úr hrísgrjónum. Einnig er hægt að kaupa eða búa til möndlumjólk.

Ef þú drekkur kaffi þá ættir þú helst að hætta því alveg, annars minnka það niður í einn til tvo bolla á dag. Farðu að prófa þig áfram í koffínlausu jurtatei.

Þú skalt forðast alla áfenga drykki. Ger er í léttum vínum og bjór og mikinn sykur er að finna í mörgum áfengum drykkjum.

Edik skaltu taka alveg út. Varastu að edik er oft í geymsluvökva hráefnis sem selt er í glösum. Notaðu eingöngu góðar, kaldpressaðar olíur út á salöt.

Varastu allar kryddblöndur. Sykur og ger eru algeng bætiefni í kryddblöndum. Lestu þér vel til. Flest kryddin frá Pottagöldrum eru góð en þó eru sum með sykri. Öll kryddin frá Rajah eru í lagi.

Varastu að ger er algengt í matar-kröftum, eins og kjöt, fisk, grænmetis og súpukrafti. Hægt er að fá gerlausan grænmetiskraft í öllum heilsubúðum.

Taktu alla ávexti út um tíma nema sítrónur geturðu haft inni.

Varastu alla unna matvöru. Keyptu óunninn fisk og kjöt.

Númer eitt er að vera duglegur í að lesa allar innihaldslýsingar á matvörum. Sykur og ger leynast alveg ótrúlega víða. Vertu líka óhrædd við að fara inn í heilsuverslanir og spyrjast fyrir. Við lærum aldrei neitt nýtt nema ef við þorum að upplýsa um vankunnáttu okkar.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Gersveppaóþol - hvað má eiginlega borða?

Next post

Sykurlöngun!!

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *