Heilsa

Ristilhreinsanir

Mikil umræða hefur verið um ristilhreinsanir síðustu mánuði og náði þessi umræða bæði inn í fréttatíma Ríkissjónvarpsins og inn í Kastljósþáttinn í gærkvöldi.

Leitað var eftir áliti tveggja lækna, sem eru meltingarsérfræðingar, og voru svör þeirra á þá leið að þetta væri í besta falli skaðlaust og árangurslaust og yfir í að vera mögulega skaðlegt. Ef saltlausn væri notuð gæti orðið ójafnvægi í ristlinum sem væri erfitt að leiðrétta en ef eingöngu væri um vatn að ræða væri þetta skaðlaust. Talað var um að ekki hefði verið sýnt fram á nein tengsl hægðatregðu við sjúkdóma og af því væri dregin sú ályktun að ekki væri skaðlegt að hafa uppsafnaðar hægðir í ristli.

Í náttúrulækningum er lögð áhersla á slíkar hreinsanir. Þar er talað um að uppsöfnun á hægðum í ristli leiði til upptöku á eiturefnum sem komast inn í blóðrásina og valda eituráhrifum.

Einkennin geta verið einbeitingaskortur, þunglyndi, skapsveiflur, þreyta, uppþemba og jafnvel ofnæmisviðbrögð. Margir álíta að þetta geti svo leitt til alvarlegri sjúkdóma eins og til að mynda ristilkrabbameins.

Einnig er mikilvægt að hreinsa ristilinn ef fólk ætlar að fasta um lengri tíma. Mælt er með að fólk noti stólpípu ef fasta á lengur en einn dag og jafnvel er mælt með notkun stólpípu þó ekki eigi að fasta nema í einn dag þar sem það auki árangurinn til muna.

Ef fastað er lengur og fólk hreinsar ekki ristilinn fer fólk að finna fyrir eituráhrifum, eins og höfuðverk, ógleði, fólk verður ringlað í hugsun, húðin verður slæm og fleiri einkenni geta komið til.

Það sem þarf að hafa í huga varðandi ristilhreinsanir er að á eftir er mikilvægt að byggja upp góða flóru í ristlinum og því gott að taka inn öflugan Acidophilus með Bifidus.

Rétt er að árétta í lokin að á Íslandi hefur verið að myndast sú hefð að kalla ristilhreinsanir það sem er kallað Colonics á ensku og stólpíur það sem kallast Enemas á ensku. Munurinn á þessu tvennu er að ristilhreinsanir (Colonics) eru framkvæmdar á stofu þar sem ristillinn er hreinsaður út með öflugri vatnsdælu og hreinsibúnaði á meðan að stólpípu er hægt að framkvæma heima með einföldum búnaði sem hægt er að fá í næsta apóteki eða heilsubúð. Ristilhreinsun er mun öflugri og árangursríkari en stólpípa, en hægt er þó að ná svipuðum árangri ef stólpípan er notuð oft, samhliða föstu.

Previous post

Ráð við sólbruna

Next post

Rósailmur bætir minnið

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *