Reynslusaga

Reynslusaga – Veiking ónæmiskerfisins vegna ofnotkunar sýklalyfja

Í framhaldi af skrifum um vaxandi notkun sýklalyfja langar mig að deila með ykkur reynslu minni af þessum málum.

Ég á tvö börn sem í dag eru á 16. og 19. aldursári. Þegar þau voru lítil hafði ég litla þekkingu á tengslum lífsstíls og heilsu og í ofanálag má segja að ég hafi verið ung móðir og var því ekki með tögg í mér til að standa á móti læknum, þeir áttu jú að vita betur.

Dóttir mín, sem er eldri, var mikið kveisubarn fyrstu þrjá mánuði lífs síns og þá tóku eyrnabólgurnar við. Hún fékk endurtekið sýklalyf og hún var búin að fá sín fyrstu rör fyrir eins árs afmælið sitt. Þar sem ekkert lát varð á sýkingunum, fékk hún stöðugt breiðvirkari lyf og áður en hún varð þriggja ára var hún búin að fara í níu svæfingar vegna hljóðhimnuröra og þegar hún var sex ára hafði hún tvívegis fengið alvarlegar lungnabólgur.

Ekki tók betra við hjá syni mínum. Hann var mjög lasinn og óvær fyrstu mánuðina og var ekki gamall þegar hann fór á sinn fyrsta sýklalyfjakúr. Hann fékk einnig astma og var á pústi daglega. Þegar hann var um eins árs gamall var varla stopp á veikindum hjá honum og var hann þá settur á sex mánaða fyrirbyggjandi sýklalyfjakúr – það þýðir, hann fékk lágmarksskammt af sýklalyfjum, stöðugt í sex mánuði.

Þegar drengurinn var að verða þriggja ára og búinn að vera sárlasinn meira og minna sína stuttu ævi ákvað ég að taka hann af öllum lyfjum og láta hann sjálfan komast í gegnum næstu veikindi. Þegar þarna var komið var hann í umsjá astmasérfræðings, barnasérfræðings og háls-, nef- og eyrnasérfræðings.

Hann hafði gengið í gegnum tvær lungnabólgur, endurteknar röraísetningar, fékk tvenns konar púst á hverjum degi og til stóð að auka það og hann var búinn að vera meira og minna á sýklalyfjakúrum frá fæðingu.

Að sama skapi hafði hann lítið sem ekkert fengið að vera úti sín fyrstu ár þar sem hann var alltaf annað hvort að ná sér af einhverri pest, ný var farin að kræla á sér eða hann var svo slæmur af astmanum að hann hóstaði út í eitt ef hann fékk að vera úti.

Þegar ég tók ákvörðunina um að hreinsa öll lyf af honum þá lagði ég þá ákvörðun mína fyrir barnasérfræðinginn og lagði hann hart að mér að fara ekki þessa leið. Hann sagði mér að ég yrði að gera mér grein fyrir að barnið mitt væri mikill sjúklingur og ætti ég á hættu að hann myndi fá alvarlega lungnabólgu sem gæti reynst honum varasöm. Og jafnframt tjáði hann mér að hann gæti ekki stutt mig í þessu.

Þetta var að hausti og fóru nú í hönd þrír erfiðir mánuðir, bæði fyrir mig og son minn. Hann fékk ítrekaðar slæmar sýkingar en ég var ákveðin í að hjálpa honum við að komast í gegnum þetta sjálfum.

Á þessum þremur mánuðum varð hann þrisvar sinnum mjög illa veikur. Hann fékk slæma eyrnabólgu, kvefpest, barkarbólgu og fleira. Við dvöldum margar nætur inni á baðherbergi þar sem ég lét heita vatnið renna á fullum krafti og þar sátum við saman í gufunni. Ég útbjó olíu með hvítlauk sem ég bar í hlustina og á bak við eyrun. Og notaði bara öll þau húsráð sem ég kunni.

Nokkrum mánuðum áður en þetta var hafði ég tekið mataræðið á heimilinu í gegn. Ég tók út allan hvítan sykur, allt hvítt hveiti og allt ger. Sonur minn hafði aldrei verið hrifinn af mjólkurvörum, þannig að hann fékk mjög lítið af þeim þótt ég hafi ekki hætt að versla þær inn á þessum tíma.

Eftir þessa þrjá erfiðu mánuði breyttist drengurinn algjörlega. Hann veiktist ekki nema af einstaka magapest sem gekk um, hann hljóp um eins og hann væri þindarlaus og breyttist í alheilbrigðan og hraustan strák eins og best getur.

Tveimur árum seinna fór ég aftur til barnasérfræðingsins þar sem sonur minn hafði smitast af kíghósta. Vegna veikinda sinna sem barn hafði hann aldrei fengið neinar bólusetningar og var því ekki með varnir við kíghóstanum. Læknirinn undraðist hversu langur tími hafði liðið síðan við höfðum sést og tjáði ég honum sögu okkar. Hans viðkvæði var að jú, hann hefði oft séð þetta gerast, börn kæmust mjög oft út úr svona veikindum um þriggja ára aldur. Þannig gerði hann að engu það sem við höfðum sjálf gert til að koma barninu út úr þessum vítahring.

Í dag eins og áður segir, er þessi drengur á 16. ári, æfir fótbolta mörgum sinnum í viku, stundar snjóbretti af miklum móð og er einatt hæstur í sínum bekk í íþróttum. Hann hefur aldrei eftir þetta farið á sýklalyfjakúr né fengið önnur lyf.

 

Hildur M. Jónsdóttir (birtist fyrst á vefnum í janúar 2007)

Previous post

Reynslusaga: Tourette - bati án lyfja

Next post

Þarf ekki að sjóða snuð

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.