Greinar um hreyfinguHreyfingViðtal - hreyfing

Viðtal við Hrafnhildi Sigurðardóttur

Hrafnhildur SigurðardóttirFyrir um tveimur mánuðum rak ég augun í smá grein um unga konu sem var búin að þróa svo sniðug námskeið fyrir börn í tengslum við tónlist. Ég ákvað að klippa þetta út og hafði í huga að hafa samband við hana og fá að heyra frekar út á hvað þetta gengi. Svo þegar hún hafði samband við mig og vildi skrá sig á síður Heilsubankans lét ég slag standa og óskaði eftir viðtali við hana.

Hrafnhildur Sigurðardóttir er ein af þessum ungu konum sem ég dáist ómælt að. Hún fer með draumunum sínum, framkvæmir hugmyndir sínar og er til staðar fyrir sína nánustu. Og mitt í þessu öllu stendur hún upp úr stórglæsileg og geislandi.

Hrafnhildur býr í fallegu húsi á Arnarnesinu með manni sínum og þremur börnum. Hún er búin að innrétta fallegt stúdíó í bílskúrnum þar sem hún heldur fjölbreytt námskeið fyrir börn og fullorðna, móðurhlutverkið skiptir hana miklu máli og leggur hún mikla rækt við það, en þrátt fyrir öll þessi verkefni hefur hún fundið tíma til að standa í að gefa út bók sem kemur í bókaverslanir nú í nóvember.

Ég settist niður með Hrafnhildi í stóru, björtu stofunni hennar á meðan að sonur hennar, fimm ára, lék sér í rólegheitum í kringum okkur. Eftir að við vorum búin að átta okkur á, eins og góðum Íslendingum sæmir, að Hrafnhildur er gömul bekkjarsystir frænku minnar, að maðurinn hennar vinnur með frænda mínum og að Hrafnhildur kannist vel við systur mína, þá snerum við okkur að því sem Hrafnhildur hefur tekið sér fyrir hendur og er með á prjónunum þessa stundina.

Hrafnhildur fæddist árið 1974 og ólst upp í Garðarbænum. Að undantöldum smátíma sem hún dvaldist á Seltjarnarnesinu og þau ár sem hún hefur búið erlendis, þá hefur hún haldið sig á heimaslóðum. Margar vinkonur hennar eru ekki langt undan og maðurinn hennar kemur einnig úr Garðabænum.

Hrafnhildur er menntaður grunnskólakennari og hefur hún einnig lokið prófi í klassískum söng. Hún var alin upp við mikla tónlist og hafði alla tíð mikinn áhuga á söng. Hún var ekki nema 16 ára þegar hún hóf sitt nám í Söngskólanum í Reykjavík. Hún leggur mikið upp úr tónlistarlegu uppeldi og hefur hún þróað gríðarlega áhugaverð og skemmtileg námskeið fyrir börn og foreldra sem hún kallar ,,Með á nótunum”.

Hrafnhildur segir að á þessum námskeiðum sé hún ekki síst að aðstoða foreldra við að verða færari og sjálfsöruggari í því að veita börnum sínum tónlistarlegt uppeldi, jafnhliða því sem hún er að örva börnin í mál- og hreyfiþroska í gegnum tónlist.

En hvað varð til þess að hún fór af stað með þessi námskeið?

Fjölskyldan fluttist til Bretlands um tíma og kynntist Hrafnhildur þá öflugu starfi fyrir foreldra og börn sem haldið var í safnaðarheimilum hverfanna. Hún fór þarna með börnin sín og þar lærði hún gríðarlegt magn af skemmtilegum söngvum sem þau sungu saman með tilheyrandi hreyfingum. Hrafnhildur fór þá að rifja upp öll gömlu lögin sem móðir hennar hafði sungið með henni sem barn og ákvað að fara af stað með að safna að sér þessum lögum. Hún leitaði fanga víða og endaði með að hún var komin með stórt safn af lögum og þulum, bæði því sem hún mundi eftir og eins öðru sem hún hafði aldrei séð eða heyrt um.

Fljótlega eftir að hún kom heim til Íslands fór hún að þróa hugmyndina um tónlistarnámskeið fyrir börn og njóta þau nú sífellt aukinna vinsælda og er Hrafnhildur nú þegar farin að bóka á næstu námskeið sem hefjast í janúar næstkomandi.

Ég var einstaklega hrifin af að heyra um að námskeiðin séu fyrir börn og foreldra þeirra. Ég spurði Hrafnhildi hvað henni fyndist um þann litla tíma sem foreldrar hafa með börnum sínum

Hrafnhildur sagði að hún hefði kynnst allt öðrum áherslum í fjölskyldulífi þegar hún bjó úti í Englandi og hefur hún reynt að halda í þessa hluti. Áherslan á fjöldkylduna er miklu meiri og tími sem fjölskyldan ver saman að sama skapi mun meiri en gengur og gerist hér á landi.

Hún segir að hraðinn og tímaskortur sem einkenni okkar samfélag sé ekki hollt börnum okkar. Það er ekkert eðlilegt að eins árs börn séu í átta til níu klukkustundir á dag í vistun utan heimilis. Að sjálfsögðu sé þetta þjóðfélagslegt vandamál þar sem við komumst ekki af fjárhagslega nema hvert heimili hafi tvær fyrirvinnur. En að sama skapi verði þjóðfélagið að einsetja sér að finna lausnir á þessu.

Hrafnhildur bendir á að foreldrar fái ranga sýn á uppeldismál við þessar aðstæður. Sá tími sem foreldrar eigi með börnum sínum séu erfiðustu stundir barnsins að deginum. Þau koma dauðþreytt heim úr leikskólunum og þurfa ómælda athygli frá umhverfinu. En á sama tíma er þetta mesti álagstími fjölskyldunnar þar sem allt þarf að gerast, versla inn, elda mat, þvo þvott, aðstoða eldri börn við heimanám og svona má lengi telja. Af þessu leiðir að foreldrum hættir til að finnast foreldrahlutverkið strembnara og minna gefandi en það að takast á við starfsframann.

Við tölum einnig um í löngu máli hvað tími barna er þaulskipulagður. Við gleymum að börn þurfa að fá að vera börn. Meira að segja inni á leikskólunum er tíminn þrælskipulagður og oft lítið um frjálsan leik. Eftir leikskólann þurfa foreldrarnir að fá tíma fyrir ræktina og er þá börnunum komið í næstu barnapössun inni á líkamsræktarstöðunum. Og svo um helgar þarf að gera svo mikið þar sem nú sé stund fyrir börnin í stað þess að slaka á og vera bara saman.

Þess vegna segir Hrafnhildur að foreldrar séu oft svo ánægðir með námskeiðin hjá henni. Þar eru foreldrarnir með börnunum. Þau syngja saman og læra lög sem þau geta tekið með sér heim og haldið áfram þar. Hrafnhildur hefur oft heyrt foreldra tala um þessar stundir sem gæðastundir þeirra með börnum sínum.

Og nú ættu þessar gæðastundir að verða aðgengilegri mun fleiri börnum og foreldrum þeirra, þar sem Hrafnhildur á von á að bók sem hún hefur sett saman komi í bókaverslanir nú í nóvember. Bókin ber sama titil og námskeiðin hennar, Með á nótunum og inniheldur hún samansafn af lögum, nótum og teikningum yfir hreyfingar sem nota má við lögin. Alveg er ég viss um að þessi bók verði vinsæl á mörgum heimilum.

En Hrafnhildur er ekki eingöngu með námskeið fyrir börn, hún kennir einnig Pilates æfingar fyrir fullorðna í stúdíóinu sínu

Hrafnhildur segir að henni hafi fundist frábær leið að sameina sína eigin þörf fyrir hreyfingu og því að kenna öðrum þetta frábæra kerfi sem hún fyrst kynntist fyrir nokkrum árum. Hún lærði hjá bandarískri konu sem kom hingað til lands og var Hrafnhildur sú eina af sex manns sem byrjuðu námið, sem náði öllum prófum og öðlaðist réttindi. Hún segir þetta stíft nám sem gangi mikið út á bókleg fög, ekki síður en verklega þáttinn og þarf hún að fara erlendis á endurmenntunarnámskeið á hverju ári til að viðhalda réttindum sínum.

Hrafnhildur segir þetta kerfi henta mjög vel öllum einstaklingum, sama í hvaða formi þeir eru þar sem STOTT PILATES gengur út á að létta eða þyngja æfingarnar eftir getu hvers og eins.

Pilates æfingarnar eru styrkjandi fyrir djúpvöðva líkamans með sérstaka áherslu á djúpvöðva maga- og baks. Byggt er á líkamsvitund, öndun og líkamsæfingum. Pilates er ekki brennsluprógramm og þarf því fólk að vera í annars konar hreyfingu með til að þjálfa hjartavöðvann. Pilates byggir upp styrk og liðleika.

Hrafnhildur kennir í litlum hópum eða að hámarki sex manns í einu þar sem kennslan miðar mikið að því að fylgst sé vel með hverjum og einum. Hægt er að skrá sig á námskeið hjá Hrafnhildi nú þegar sem byrja í janúar en einnig er hægt að byrja strax ef fólk hefur áhuga á að komast í einkatíma.

Hrafnhildur segir að fólkið sem komi til sín í þjálfun sé alls ekki einsleitur hópur. Núna sé hún með í gangi t.d. hóp af konum sem eru að koma sér í form eftir barnsburð, hún sé með hóp af hlaupurum sem vilja styrktaræfingar samhliða og einnig sé hún með hóp af fólki með alls kyns stoðkerfisvandamál.

Áður en ég kveð Hrafnhildi lítum við inn í stúdíóið hennar. Þarna hefur hún skapað bjart og vinalegt umhverfi sem hefur ævintýraljóma yfir sér vegna barnanámskeiðanna og slakandi andrúmsloft fyrir Pilates hópana. Og það sem hreif mig mest var stærðar gluggi sem sneri út á Kópavoginn með dásamlegu útsýni.

 

Hildur M. Jónsdóttir ræddi við Hrafnhildi, viðtalið birtist fyrst á vefnum í október 2006.

Previous post

Hreyfing og mataræði

Next post

Kaldar hendur og fætur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.