MataræðiÝmis ráð

Að léttast með hunangi

Hunang er dýsætt og getur verið frábær staðgengill sykurs. Það er miklu hollara, ekkert sérstaklega fitandi, inniheldur færri kaloríur og er uppfullt af vítamínum.

Hunang inniheldur miklu fleiri næringarefni en sykur, síróp og aðrar unnar sykurvörur. Það er náttúrulegt hráefni og hið eina í fæðuhringnum sem unnið er úr blómstrandi aldini plöntu. Í hunangi eru prótein, B2 vítamín, B3 vítamín, B5 vítamín, B6 vítamín, B9 vítamín, C vítamín, kalk, járn, magnesíum, fosfór, kalíum og sínk. Það inniheldur líka andoxunarefni sem draga úr öldrun frumna.

Hunang sem er tiltölulega hitaeiningaríkt gefur okkur allt aðra orku en sykur. Orkan úr hunangi fer miklu hægar inn í blóðið og heldur því blóðsykrinum stöðugari en orka úr sykri. Miklar sveiflur á blóðsykri, sem m.a. skapast við sykurát auka líkur á sykursýki, hjartasjúkdómum og offitu.

Nokkur ráð héðan og þaðan um neyslu hunangs:

Ayurveda rit hindúa mæla með hunangsneyslu gegn offitu. Þar er t.d. mælt með að hefja daginn á að leysa teskeið af hunangi upp í heitu vatni og blanda fersku lime- eða sítrónusafa við. Ráðlagt er að drekka piparmintu- eða engiferte með hunangi og snæða hráar engifersneiðar með hunangi út á.

Hið forna Unani heilsukerfi fjallar líka um hunang gegn offitu. Þar er lagt til að fólk geri sér þennan morgundrykk. Sjóðið hálfan bolla af vatni og látið kólna (suða eyðir gagnlegum ensímum í hunangi), bætið við hálfri skeið af kanildufti og teskeið af hunangi.

Tilvalið er að búa sér til létta, holla máltíð með hunangi. Ávaxta smoothie sem samanstendur af blöndu af þremur mismunandi ávaxtategundum (ananas, mangó, greip, epli, bananar, bláber, jarðaber eða ferskjur) sem sett er saman í blandara ásamt teskeið af hunangi og nokkrum ísmolum. Blandað saman þar til áferðin er hæfileg. Hnetum eða jógúrti stráð yfir.

Hunang er gagnlegt í íþróttaþjálfun. Rannsóknir sýna að neysla hunangs meðan á æfingu stendur gefur aukinn kraft og eykur árangur. Það er mun heilsusamlegra en hefðbundnir orkudrykkir því það heldur blóðsykrinum stöðugum en gefur jafnframt orku, auk þess sem það er ódýrara.

Hér koma tvær tillögur af slíkum orkudrykkjum:

  • 1/3 bolli af náttúrulegum vínberjasafa (eða öðrum berjasafa), 1/3 bolli hunang og 6 bollar af vatni. Hrærið saman, hellið á flöskur, setjið í kæli eða frysti.
  • Setjið fjóra tepoka af uppáhalds teinu ykkar í tvo bolla af sjóðandi vatni. Bætið við 5 bollum af vatni og 1/3 bolla af hunangi. Hrærið saman, hellið á flöskur og setjið í kæli eða frysti.

Það er ljóst að hunang er okkur mjög hollt. Þeir sem ekki neyta sykurs gætu haft gott af því að neyta smá hunangs daglega. Þeir sem borða sykur geta hæglega skipt út fyrir hunang í fjölmörgum tilfellum. Þess skal þó gæta að hunangið sé fyrsta flokks en stundum er ódýrt, fjöldaframleitt hunang ekki raunverulegt hunang heldur sírópsblanda.

Gætið að því að hunangið sé kaldhreinsað og lífrænt. Það fæst í heilsubúðum og oft í heilsuhillum stórmarkaða.

Þeir sem þjást af gersveppaóþoli ættu ekki að neyta hunangs eða annarrar sætu á meðan unnið er á gersveppnum. Einnig þarf að hafa í huga að takmarka neyslu á hunangi rétt eins og á öðrum sætindum en eins og bent er á í þessari grein er hunang þó mun betra en sykur.

Höfundur: Helga Björt Möller

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Meðlætissalöt - með öllum mat

Next post

Heimagerð páskaegg úr heimagerðu súkkulaði

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *