BrauðMataræðiUppskriftirÝmis ráð

Flatbökur – Pítsur

Pistill frá Sollu – Upplagður matur í tímaleysi aðventunnar – eiga frystan pitsubotn, skella fyllingu ofaná, inn í ofn og BINGO

Skyndibita breytt í heilsubita

Saltfiskur, saltkjöt og bjúgu voru meðal þess sem aldrei voru á boðstólnum á mínu heimili þegar ég var að alast upp. Móðir mín hafði upp á sitt einsdæmi gerst grænmetisæta 12 ára (1947) móður sinni til mikillar armæðu. Þessar ákvarðanir hennar urðu til þess að við fengum alls kyns rétti sem voru fáséðir hjá hinum annars ótrúlega myndarlegau húsmæðrum í hverfinu. Einn af þeim réttum var “útlenskur” með skrýtnu og hálf dónalegu nafni. Pissa.

Þetta var á árunum 1960 – 70 og móðir mín hafði fengið uppskriftina úr einhverju dönsku konublaðinu sem hún var áskrifandi að.

Sú útgáfa sem var vinsælust hjá okkur samanstóð af mjög grófum heilkorna botni (svo hollur að hann minnti á dyramottu) sem á var sett heimagerð tómatsósa og síðan var sardínum raðað í munstur yfir. Við krakkarnir elskuðum þennan útlenska mat og mamma framleiddi heilu ofnskúffurnar af þessari dásemd. Nafnið fór þó alltaf soldið fyrir brjóstið á mér. Einhverju sinni hafði ósætti komið upp á milli mín og vinkonu minnar og sagði hún þá við hvern sem heyra vildi: “Mamma hennar Sollu er með piss í matinn, ég sver´ða.”

 

Sagan

Pítsan á rætur sínar að rekja til miðjarðarhafslandanna þar sem bakað var brauð eða flatur brauðbotn í opnum ofnum og á það settir tómatar. Eins og svo margt sem verður vinsælt byrjar þetta á að vera fátækra manna matur. Við tengjum pítsur gjarnan við Ítalíu og það var líka í Napolí árið 1830 sem fyrsti pítsu staðurinn er sagður hafa opnað. Antica Pizzeria Port’Alba er nafnið og eftir mínum heimildum þá er hann enn í fullu fjöri.

Það hafa skapast deilur um hvað sé hin eina sanna pítsa og vildu sumir snillingarnir meina að Pizza Marinara og Pizza Margherita væru hinar einu sönna pizzur. Marinara sem er elsta pítsu útgáfan er með tómötum, oregano, hvítlauk, kaldpressaðri ólífuolíu og basil. Margheritan er í ítölsku fánalitunum, með tómatsósu, mosarella osti og basil. Hún heitir í höfuðið á ítölsku drottningunni Margheritu frá Savoy sem sat við hlið sins ektamaka og konungs Umberto 1 á árunum 1878 – 1900. Þessar útgáfur hljóma aðeins öðruvísi en uppáhalds pítsa eins góðs vinar míns. Sú pítsa gengur undir nafninu Búkolla á matseðlinum. Á henni er að finna franskar, bernais sósu, nautakjöt, ost og nýmalaðan svartan pipar. Þessa hugmyndaríku flatböku pantar hann sér alltaf á pítsustað á landsbyggðinni þegar hann á þar leið um og fær vatn í munninn þegar hann talar um þennan uppáhaldsrétt sinn.

 

Vinsæll skyndibiti

Þessi flati brauðbotn sem við í dag köllum flatböku eða pítsu er líklega einn af vinsælli skyndibitum heimsins. Það sem mér finnst svo frábært er að það er mjög einfalt að gera þetta að virkilega hollum og góðum heilsubita….

Þetta er svo vinsæll réttur að á flestum lífrænum hráfæðistöðum út í heimi er að finna mismunandi útgáfur af óelduðum eða hráum pítsum á matseðlinum.

Í dag er ekkert heilagt þegar pítsa er annars vegar og eru til alveg ótrúlega margar uppskriftir af botnum, pítsusóum og áleggi.

Ég ætla að gefa ykkur uppskrift af pítsubotninum sem ég bý til úr lífrænu spelti og vínsteinslyftidufti. Þessi botn er sérstaklega einfaldur og fljótlegur. Hann þarf ekkert að standa og hefa sig, heldur verður betri því fyrr sem hann fer í ofninn.

  • Ég blanda gjarnan saman fínu og grófu spelti, þið getið notast við þá blöndu eða notað eingöngu gróft eða eingöngu fínt spelt.
  • Síðan nota ég vínsteinslyftiduft sem lyftiefni í stað gers og örlítið salt.
  • Ég set þurrefnin í hræivélaskál og blanda þeim saman.
  • Mér finnst þessi botn verða lang bestur ef ég nota kaldpressaða kókosolíu og set ég hana út í þurrefnablönduna.
  • Ég nota sjóðandi vatn sem vökva og helli því rólega út í deigið á meðan það er að hrærast.
  • Þegar þetta verður að kúlu þá er deigið tilbúið.
  • Þá flet ég deigið út og forbaka ofninn við 200°c í um 3-4 mín.

Þetta er ótrúlega auðveld og fljótleg uppskrift sem gerir það mjög freistandi að skella í botn á ýmsum tímum sólarhringsins. Ég læt unglinginn minn stundum ná mér kl 7 að morgni þegar hún setur upp hundsaugun og biður mig ótrúlega fallega um eitthvað annað en salat í nesti. Plííís. Þá líður innan við 15 mín frá því að ég byrja á pítsunni þar til hún er komin í nestisboxið….

Ég hvet ykkur til að vera voguð og skapandi í eldhúsinu, ég skal gefa ykkur nokkrar hugmyndir sem vonandi hjálpa ykkur til að búa til ykkar eigin útgáfur af sérlega girnilegum og hollum pítsum.

Gangi ykkur sem allra best
Solla

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir 

 

Fljótlegir pítsubotnar úr spelti

Geitaosta pítsa

Græn pítsa

Banana pítsa m/súkkulaði

Previous post

Ídýfa

Next post

Ungar kókoshnetur - young coconut

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.