HeimiliðSamfélagiðVinnan

Frestunarárátta

Bandarískir sálfræðingar hjá háskólanum Northwestern í Illinois stóðu nýlega að rannsókn sem sýndi að óþolinmóðir einstaklingar eru gjarnan haldnir frestunaráráttu og skjóta oft verkefnum á frest sem þeir myndu aldrei leyfa öðrum að fresta.

Sálfræðingarnir vonast eftir því að niðurstöðurnar auðveldi sér að finna aðferð til að meðhöndla fólk sem er haldið frestunaráráttu, því það getur haft slæm áhrif á framleiðni fólks í vinnu og getur kostað umtalsverðar fjárhæðir fyrir vinnuveitendur.

Ernestu Reuben sem stjórnaði rannsókninni segir að fólk skjóti hlutum ekki viljandi á frest heldur sé það óþolinmæðin sem komi í veg fyrir að þau vinni verkin. Þetta kom fram í frétt á Mbl.is.

Það kemur fram að þetta geti verið atvinnurekendum dýrt, en vert er að hafa í huga þau óþægindi sem þetta skapar manneskjunni sjálfri. Fólk sem er haldið frestunaráráttu kemur sér gjarnan í tímapressu og fer þá að upplifa streitu og kvíða.

Það er skynsamlegt fyrir þá sem eru gjarnir á að fresta hlutunum að skipuleggja sig vel og setja tímamörk á verkefni. Gott er að skrifa niður allt það sem liggur fyrir og strika svo út af listanum það sem er fullunnið. Uppfærið svo listann reglulega.

Annað sem gott er að notast við eru stóru borðdagatölin þar sem hvert blað nær yfir einn mánuð. Gott er að skrifa inn á þau öll tímamörk og hengja hvern mánuð upp á áberandi stað fyrir ofan vinnuaðstöðuna.

Allt skipulag hjálpar gríðarlega við að takast á við frestunaráráttuna. Ef til dæmis fólk er að fresta ákveðnum hlutum von úr viti, þá er það góð áminning ef unnir eru svona minnislistar eins og getið var um hér að framan, að manneskjan er ítrekað að skrifa upp sama hlutinn sem þarf að sinna – það eykur líkurnar á að hún skelli sér í að leysa málið og losna við það út af listanum.

Einnig er mikilvægt að læra af reynslunni, skoða verkefnabókina eða listana aftur í tímann og sjá hversu miklu maður er í raun að koma í verk. Út frá því getur maður farið að búa til raunhæfari markmið.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í febrúar 2008

Previous post

Getum við gert betur?

Next post

Streita

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *