FæðuóþolMataræði

Glútenóþol

Glútenóþol (Celiac disease, Celiac sprue) er krónískur meltingar- eða þarmasjúkdómur. Sjúkdómurinn er arfgengur og getur lagst á bæði börn og fullorðna og getur hann komið fram á hvaða aldursbili sem er.

Algengast er að hann komi fram hjá börnum sem eru að byrja að fá fasta fæðu og einnig getur sjúkdómurinn þróast/vaknað upp hjá fullorðnum einstaklingum við mikið andlegt álag eða líkamlegt áfall, s.s. við uppskurð eða þungun.

Glúten er prótín eða eggjahvítuefni sem er að finna í ýmsum korntegundum.

Orsakir glútenóþols eru ókunnar en afleiðingar þess geta verið alvarlegar og er því ástæða til að vera vakandi fyrir einkennum og láta rannsaka hvort um glútenóþol geti verið að ræða þegar einkenni eru til staðar.

Glútenóþol er greint eftir nokkrum leiðum. Eina leiðin sem er alveg fullgild byggir á sýnatöku, af slímhúð í smáþörmum, við magaspeglun. Annað sem hægt er að byggja á eru blóðprufur þar sem skimað er eftir mótefni við glúteni.

Þegar manneskja með glútenóþol innbyrgðir glúten skemmist slímhúðin í þarmaveggjum smáþarmanna. Þarmatoturnar skaddast og visna og veldur það því að yfirborð þarmanna verður minna og frásog næringarefna að sama skapi of lítið.

Vannýting næringarefna getur orðið að alvarlegu vandamáli og leitt til vannæringar þrátt fyrir gott mataræði. Þar sem að glútenóþol truflar eðlilega meltingu getur annað fæðuóþol eða fæðuofnæmi fylgt í kjölfarið og algengt er að fólk með glútenóþol geti t.d. ekki brotið niður mjólkursykur.
Glútenóþol virðist vera allverulega vangreindur sjúkdómur og hefur komið í ljós á síðustu árum að hann er mun algengari en áður var talið. Í Evrópu er talið að um 2 – 6 af hverjum 1000 íbúum hafi þennan sjúkdóm. Á Íslandi hefur hann eingöngu verið talinn herja á 1 af hverjum 34.000 börnum en ætla má að hér sé um mikla vangreiningu að ræða.

Einkenni sjúkdómsins geta verið mjög mismunandi. Fyrstu einkenni eru oftast niðurgangur, þyngdartap og næringarskortur. Önnur einkenni geta verið ógleði, magatruflanir og verkir, hægðatregða, þreyta, þunglyndi, pirringur, slappleiki, blóðleysi, lið- og beinverkir, beinhrörnun, munnangur og glerungseyðing á tönnum.

Hjá ungabörnum með glútenóþol getur orðið vart við hæga þyngdaraukningu eða jafnvel þyngdartap (vanþrif).

Ef glútenóþol er ekki meðhöndlað er hætta á að það leiði til annarra sjúkdóma og oft mjög alvarlegra. Þar má nefna að beinsjúkdómar geta komið fram, truflun í taugakerfi, flog sem orsakast af vanupptöku á fólinsýru, ófrjósemi, sjúkdómar í nýrum, brisi og skjaldkirtli og talið er að glútenóþol geti leitt til ristilkrabbameins.

Ekki er til nein lækning á glútenóþoli og eina meðferðarúrræðið er ævilangt glútenfrítt mataræði.

Glúten er að finna í hveiti, heilhveiti, hveitiklíð, durum hveiti, semolina, spelti, rúgi, byggi, cous cous, búlgur og kamut mjöli. Flestir með glútenóþol geta borðað hafra ef þeir hafa verið meðhöndlaðir sérstaklega en ráðlagt er að leita eftir ráðleggingum hjá lækni eða öðrum meðferðaraðila þar um.

Aðrar vörur sem innihalda glúten eru allar vörur sem innihalda eitthvað af ofangreindu, t.d. pasta, morgunkorn, unnar matvörur, sojasósa, pakkasósur og súpur, súputeningar, alls kyns tilbúnar sósur, kryddblöndur, kartöfluflögur og franskar kartöflur, steiktur laukur og alls kyns sælgæti. Einnig ef sterkja er notuð þá er möguleiki á að hún sé unnin út glútenafurð en þó er algengast að notast sé við maís- eða kartöflusterkju sem er í lagi.

Einnig er möguleiki á að fæðubótarefni innihaldi glúten.

Það sem gildir er að lesa vel allar innihaldslýsingar og spyrjast fyrir hjá verslun eða framleiðanda. Gott úrval af glútenlausum vörum er að finna í heilsuverslununum.

Mjöl sem er glútenlaust er hirsi, hrísgrjónamjöl, bókhveiti, kartöflumjöl, maís, sojamjöl og baunamjöl eins og kjúklingabaunamjöl, quinoa, amaranth og tapiocamjöl.

Benda má á að hægt er að fá glútenlausa sojasósu sem heitir Tamari.

Þar sem glútenfríar kornvörur innihalda lítið af trefjum þarf sérstaklega að gæta að því að neyta fjölbreyttrar fæðu sem rík er af grænmeti og ávöxtum.

Fólk með nýgreint glútenóþol þarf að gæta þess að neyta matvöru sem er rík af járni og B-vítamíni þar sem þau hafa frásogast illa.

Önnur vítamín sem frásogast illa hjá fólki með glútenóþol eru fituleysanlegu vítamínin, A, D, E og K og er ástæða að taka þau inn sérstaklega.

Önnur góð bætiefni eru góðar fitusýrur, amínósýrur, magnesíum og kalk. Leitið einnig ráðlegginga hjá meðferðaraðila varðandi bætiefni.

Tyggið vel matinn áður en honum er kyngt þar sem það hjálpar við upptöku næringarefna.

Með því að halda sig algjörlega frá vörum sem innihalda glúten má ná upp eðlilegri starfsemi slímhúðar í smáþörmunum, sérstaklega ef greining dregst ekki of á langinn. Þetta getur þó tekið tíma og er því ástæða til að taka bætiefni inn með góðu mataræði í all nokkurn tíma.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Glútenlaust kókoshveiti

Next post

Gersveppaóþol - hvað má eiginlega borða?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *