Reynslusaga

Hægfara bati eftir bílslys

Reynslusaga Hildar M. Jónsdóttur 

Það er eitt sem er öruggt í lífinu, við vitum að alheimurinn skaffar okkur nóg af verkefnum til að takast á við og leysa, svo að við getum vaxið og þroskast.

Þar til fyrir nokkrum árum taldi ég mig geta leyst öll þau mál sem almættið setti fyrir mig, það væri bara spurning um að finna rétta lykilinn og snúa honum í skránni.

Með árunum hefur þessi vissa aðeins látið á sjá og nú tel ég að stundum eru hlutirnir þannig að við þurfum frekar að læra að sættast við þá eða læra að sleppa tökunum, frekar en að rembast við að finna réttu lausnina. Lausnin er ekki alltaf í okkar höndum og oft er það þannig að ef við erum svo staðráðin í að leysa mál sem ekki eru í okkar verkahring að leysa, þá stöndum við í veginum fyrir alheiminum að koma inn til að rétta okkur hjálparhönd.

Það er oft talað um að það sé erfitt að breytast og það þurfi oft að koma til stóráföll til að við náum í raun varanlegum breytingum. Og ég get sagt það með mig að mín erfiðasta raun í lífinu var að lenda í slæmu bílslysi fyrir nær átta árum, en það hefur einnig verið minn mesti lærdómur í lífinu. Þessi reynsla hefur í raun mótað mig gríðarlega og breytt bæði hegðun minni, hugsun og það hvernig ég sé lífið.

Í lok desember árið 2000 var ég á leið upp í Borgarfjörð til að dvelja yfir áramótin í bústað með fjölskyldunni minni. Ég var að keyra Vesturlandsveginn og var nær því komin að Hvalfjarðargöngunum þegar bíll ók í veg fyrir mig. Ég slapp alveg ótrúlega vel úr þessu slysi miðað við það að fólk sem kom að slysinu, var öruggt á því að það væri að koma að dauðaslysi.

Ég slapp með nokkur brotin bein, handarbein, rifbein og hryggjarlið, auk þess sem ég tognaði illa á tveimur stöðum í baki og í hálsi.. Ég og maðurinn minn brosum gjarnan af því í dag hvernig viðbrögðin mín voru eftir slysið. Ég taldi að þegar beinin væru gróin yrði ég jafn góð og áður. Þegar ég kom í endurkomu á slysadeildina lagði ég mikla áherslu á við lækninn að hann gæfi mér leyfi til að byrja að vinna um næstu mánaðarmót á eftir, sem hann var auðvitað tregur til og ráðlagði mér að sjá til hvernig ég yrði. Þremur mánuðum síðar þegar ég var enn ekki farin að hafa kraft í vinnu og komst varla í gegnum daginn, þá ákvað ég að lausnin hlyti að felast í því að ég þyrfti bara að taka mér algjöra hvíld í nokkra daga og þá yrði þetta komið.

Ég var lengi föst í þessu fari og taldi alltaf að það hlyti að vera eitthvað sem ég væri að gera vitlaust og ef ég bara kæmi auga á lausnina yrði ég algóð á sama tíma. Núna átta árum síðar, þegar ég er enn að takast á við afleiðingar þessa bílslyss veit ég betur og brosi af óþolinmæði minni og stórmennskubrjálæði frá þessum tíma.

Og það er fleira sem ég hef lært á þessum tíma fyrir utan að sjá sjálfa mig í betra ljósi. Ég lærði enn og aftur að hið hefðbundna heilbrigðiskerfi er ekki alltaf með lausnirnar þrátt fyrir að það telji sig hafa þær. Eftir að ég var búin að fylgja því sem læknarnir lögðu fyrir mig í á annað ár, búin að gleypa heilt apótek og orðin sérfræðingur í lyfjum af öllum stærðum og gerðum, ákvað ég að lausnin lægi ekki í töflum þar sem þær höfðu ekki skilað mér neinu. Þegar ég fór til eins læknis eftir það og bað hann um önnur ráð brást hann hinn versti við og hálf gargaði á mig hvað ég vildi eiginlega að hann gerði fyrir mig ef ég neitaði að taka lyfin mín.

Önnur leiðinleg reynsla sem ég varð fyrir á  þessum tíma gerðist í endurhæfingu í Hveragerði. Þar lenti ég á lækni sem tjáði mér að ég væri sennilega svona manneskja sem mundi gera allt til að leyta mér hjálpar en hann gæti sagt mér það að það væri eingöngu tíminn sem myndi leiða í ljós hvort ég yrði einhvern tíma betri, sjúkraþjálfarar, nuddarar, sálfræðingar eða hvað þetta nú allt heitir, er ekki eftir að hjálpa þér neitt.

Það er ofboðslega slæmt þegar manneskjur í þessari stöðu reyna á þennan hátt að taka trú fólks frá því að það geti á einhvern hátt haft áhrif á bata sinn. Bara vonin og trúin ein getur haft afgerandi áhrif á það hvort einstaklingur nái bata. Það má aldrei taka trúna af fólki.

En það var eitt sem þessi læknir hafði rétt fyrir sér með, ég er þannig manneskja að ég held áfram að reyna og leyta til að styðja við bata minn. Og á þeirri leið hef ég lært og upplifað margt. Til dæmis hélt ég að hjálpina yrði fyrst og fremst að finna hjá læknum og sjúkraþjálfurum en raunin varð önnur. Lyfin gerðu það eitt að deyfa verkina og hjálpuðu mér ekki við að ná krafti og úthaldi og sjúkraþjálfun hefur hentað mér mjög illa þar sem líkami minn bregst svo afgerandi við öllu slíku inngripi þar sem hann er svo ofurviðkvæmur.

Það sem hefur gagnast mér miklu betur eru heildrænu meðferðirnar sem vinna miklu frekar með líkamanum. Þær miða allar að því að hjálpa líkamanum sjálfum að lækna sig. Hómópatían hefur hjálpað mér mikið við að ná upp orku, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur veitt líkamanum slökun og tóm til að heila sig og nudd og nálastungur hafa lagt sitt að mörkum til að létta á verkjum og auka úthald.

Ég var líka búin að vera á mjög góðu mataræði í mörg ár fyrir slys og hefur það einnig hjálpað alveg gríðarlega. Eina hreyfingin sem ég ræð við í dag eru göngutúrar á jafnsléttu eða mjög róleg ganga um óslétt land, en þrátt fyrir það mælist ég með þrek yfir meðaltali miðað við konur á mínum aldri sem eru fullfrískar. Þetta þakka ég alfarið mataræðinu. Einnig var sjúkraþjálfari sem sagði við mig stuttu eftir slysið að hann vonaði innilega að ég yrði ekki eins og svo margar konur sem kæmu til hans eftir svona slys, á innan við ári væru flestar þeirra búnar að bæta við sig 20 til 30 kílóum. Og ég veit að ef ég hefði ekki verið á mínu góða mataræði hefði ég tilheyrt þessum hópi.

En stæðsta gjöfin í mínum bata fékk ég frá iðjuþjálfanum mínum á Reykjalundi fyrir tveimur árum. Ég fór inn á Reykjalund með því hugarfari að nú ætlaði ég heldur betur að taka á því og nú átti að koma öllu í lag. Markmiðið var helst að koma alheilbrigð út. En það fór á annan veg. Ég náði ekki miklum framförum líkamlega en stóra gjöfin var sú að ég náði gríðarlega miklum framförum í því hvernig ég horfði á sjálfa mig og lífið.

Iðjuþjálfarinn minn fór með mig í gegnum það að skoða hvaða væntingar ég gerði til mín og hvernig ég mæti framfarir mínar og það sem ég kæmi í verk. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var búin að vera þvílíkur hafðstjóri á sjálfa mig, ég var stöðugt að rífa mig niður fyrir það sem ég gat ekki gert, í stað þess að vera ánægð með það sem ég gæti gert. Einnig var ég í því að setja á mig óraunhæfar kröfur og varð sífellt fyrir vonbrigðum þegar ég gat ekki mætt þeim. Þetta munstur setti mig í stöðuga spennu og kvíða sem í raun vann á móti bata mínum.

Eftir þetta öðlaðist ég nýtt viðhorf til sjálfrar mín og heilsu minnar. Ég fór að fagna því hvað ég gat í raun gert mikið og ég fór einnig að sættast við það þegar ég átti slæma tíma. Ég lærði að sleppa tökunum.

Allt frá þessum tíma hef ég verið að ná stöðugt meiri styrk og úthaldi, með því að ætla mér ekki of mikið og vera ánægð með það sem ég get gert, það verður jú að duga, meira getur maður ekki gert. Og þegar slæmu dagarnir koma, þá veit ég að ég þarf að gefa þeim rúm og leyfa þeim að stoppa mig, því ég veit að þá kemst ég fyrr á fætur aftur og góðu dögunum fjölgar á móti. Ég hef lært að hlusta betur á líkama minn og leyfi honum að vera með í ráðum. Hér áður fyrr hunsaði ég yfirleitt þegar líkami minn gaf til kynna þreytumerki og setti bara undir mig hausinn og keyrði á fullri ferð áfram.

Það var mjög athyglisvert að þegar ég horfi til baka í dag, geri ég mér grein fyrir því að ástæða þess að ég var svona hörð við mig var sú, að í raun var ég full af fordómum gagnvart veiku fólki. Ég hafði alla tíð fundist ég mjög opin og fordómalaus manneskja, en þegar ég skoðaði málið betur þá var ég í raun að dæma sjálfa mig aumingja að geta ekki hrist þetta bara af mér og komið hlutunum í lag. Ég hafði jú alla tíð getað lagað allt og fundið lausnirnar, en þetta var í fyrsta sinn sem ég mætti ofjarli mínum. Og ég gerði mér grein fyrir að áður fyrr hafði ég alltaf ómeðvitað hugsað að það væri í sjálfu sér fólki sjálfu að kenna ef það væri veikt. Það væri bara ekki búið eða vildi ekki finna lausnina.

Ég veit og trúi enn að batinn er alltaf að stórum hluta í okkar höndum, en það eru ekki alltaf til algildar lausnir og oft er stærsta lexían að leyfa alheiminum að koma inn til hjálpar. Ég hef lært í gegnum þessa reynslu auðmýkt, virðingu fyrir einstaklingnum og það að maður getur aldrei almennilega sett sig í spor annarra, maður þarf að mæta hverri manneskju á þeim stað þar sem hún er og sennilega hefur stærsta lexían mín verið þolinmæði og það að geta notið lífsins og fundið hamingjuna í núinu, þrátt fyrir að núið sé ekki alltaf alveg eins og ég var búin að reikna með.

Í dag þarf ég ennþá að takast á við mjög slæm mígreniköst öðru hvoru, þar sem að hálsinn á mér er mjög veikbyggður eftir slysið og öll spenna þar vill koma út í höfuðverkjum. En tíðni þeirra hefur minnkað verulega í gegnum árin og úthald mitt fer alltaf batnandi. Ég er búin að fá að heyra frá fleiri en einum lækni og fleiri en tveimur á þessu ferli, að ég yrði bara að sætta mig við að verða ekki betri. En ég sem betur fer hlutstaði ekki á þær raddir því það eru stöðugar framfarir hjá mér á milli ára og ég held áfram að búa þannig í haginn að líkami minn fái tækifæri til að heila sig að fullu.

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Tölvupóstur er tímaþjófur

Next post

Hnetudásemd Sollu

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *