Greinar um hreyfinguHreyfing

Slökun líkamans á skrifstofunni

Grein skrifuð af Völu Mörk, iðjuþjálfa, einkaþjálfara og kettlebellsþjálfara

Það eru tengsl milli andlegrar vellíðunar og líkamsstöðu. Prófið bara að hugsa eitthvað jákvætt, brosa síðan ýktu brosi og reyna svo að hugsa eitthvað dapurt. (Er það hægt?)

Standið/sitjið eins og þráður væri frá toppi höfuðs og upp. Réttið vel úr baki og ekki spenna axlir.

 

Þindaröndun:

Setjið lófa á maga og finnið maga stækka við innöndun og dragast inn við útöndun. Ef brjóstkassinn er stífur og lyftist bara (ekki maginn) þá erum við einungis að nota efsta hluta lungnanna og fáum því hlutfallslega lítið súrefni í hverjum andadrætti miðað við það sem þau hafa getu til að taka.
Með þindarönduninni getum við “æft” líffærin okkar sem annars missa stinnleikann með aldrinum.

 

Eftirfarandi æfingar eru gerðar til að koma jafnvægi á líkamsstarfsemina.

 

Slökun:

Standið með lokuð augu, sveiflið höndum og slakið á öxlum. Látið síðan arma hanga, fingur slakir og þyngd á hælunum. Notið þindaröndun í 2 mín. og “verið í núinu”.

Standið með aðeins bogin hné, mjaðmagrind undir ykkur (setjið rófubeinið aðeins fram með því að rétta úr mjóbaksfettunni). Ímyndið ykkur strengjabrúðuþræði sem toga hendurnar af stað, horfið fram og lyftið handleggjum fram og hreyfið upp og niður í ölduhreyfingu. Andið í takt við hreyfinguna, því hægari öndun því hægari hreyfing.

Ímyndið ykkur bolta fyrir framan ykkur, sem þið haldið á í höndunum, önnur höndin í brjósthæð og hin við nafla. Færið þær saman og finnið hitann milli þeirra. Síðan aukið þið smám saman fjarlægðina milli handanna en haldið áfram að finna tengslin milli þeirra. Snúið ykkur svo hægt frá hægri og yfir til vinstri um leið og þið snúið boltanum. Hugsið um öndunina.

Sama líkamsstaða, aðeins bogin hné, bakið beint, haldið handleggjum frammi og opnið og lokið lófum hratt til að auka blóðrás í höndum. Hristið svo hendurnar og leggið þær á enni og sláið létt frá enni yfir á hnakka. Góð leið til að vekja sig og auka meðvitund. Ef þið þreytist í handleggjum þurfið þið að slaka á öxlum. Þessi æfing á að auka blóðflæði í heila.

Standið með slaka handleggi, sveiflið ykkur frá hægri til vinstri og látið hendur (flatan lófa) slá létt á líkama. Á framhlið líkamans skal slegið rétt ofan við brjóst og aftan á líkama skal slegið í nýrnahæð. Venjuleg öndun. Á að auka blóðflæði til líffæra.

 

Náttúruleg andlitslyfting

Sitjið á stól, núið höndum saman og hitið vel, setjið svo lófa yfir augun, haldið í 2-3 andadrætti, endurtakið 3 sinnum.

Núið saman höndum og nuddið við nefið og undir augu, upp á kinnbein og augabrúnir. Farið 15-20 hringi.

Núið saman höndum, setjið lófa á eyru og “tappið” með vísifingri á hnakka (þar sem hálsvöðvar tengjast á hauskúpuna).

Glennið fingur upp, setjið litlu fingur við augnkróka og þumla við kjálka og nuddið í einni hreyfingu öllum fingrum yfir enni og hársvörð, myndið góðan þrýsting með fingrum. Endurtakið 6-10 sinnum.

Endið á þindaröndun með hendur á maga, önnur á maga og hin höndin lögð ofaná. Sitjið og nota þindaröndun í 2 mín., slakið vel, “verið í núinu”.

 

Efni þessarar greinar er unnið upp úr námskeiði sem Steve Cotter hélt hér á landi á vegum kettlebells.is

Previous post

Tai Chi

Next post

Æfingar fyrir skrifstofufólk - Liðleikaþjálfun

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.