Greinar um hreyfinguHreyfing

Tai Chi

Tai chi er ævafornt, kínverskt æfingakerfi sem nýtur sífellt meiri vinsælda á Vesturlöndum.

Það sem Tai chi gerir meðal annars, er að það losar um spennu í líkamanum, vinnur á móti streitu, eflir ónæmiskerfið, eykur styrk og sveigjanleika líkamans og hefur jákvæð áhrif á blóðrás.

Sagan segir að uppruni Tai chi nái allt aftur til þrettándu aldar og er hermt að upphafsmaður þess hafi heitið Chang San-Feng og var hann Taóískur munkur. Hann er sagður hafa séð sýn í hugleiðslu þar sem fuglinn hegri og snákur hafi tekist á og Chang San-Feng hafi hrifist svo af hvernig þeir á tignarlegan hátt sveigðu sig til svo þeir gætu forðast árás andstæðingsins. Hann hafi í framhaldinu þróað röð hreyfinga sem byggðust á hreyfingum þessara dýra og annarra, til að nota sem sjálfsvarnarkerfi.

Fyrstu rituðu heimildirnar um Tai chi ná aftur til 17. aldar. Til voru mörg æfingakerfi sem stórfjölskyldurnar í Kína þróuðu og héldu leyndum innan fjölskyldnanna. Þetta breyttist með tilkomu Yang Lu Chan (1799 – 1872) en hann þróaði sitt eigið kerfi og fór að kenna það almenningi. Þetta kerfi er sennilega mest notað í dag þó fjölmörg önnur kerfi séu einnig kennd.

Tai chi er upprunalega sjálfsvarnaríþrótt en iðkendur í dag nota kerfið ekki sem slíkt. Æfingarnar einkennast af mjúkum og flæðandi hreyfingum sem efla líkamsmeðvitund og meðvitund um öndun, efla jafnvægi og stuðla að hugarró.

Tai chi er samtvinnað hinni fornu, kínversku heimspeki Taoisma sem leggur áherslu á að lifa í auðmjúkum takti við náttúruna. Frumatriðið í bæði Taoisma og Tai chi er að vera jarðtengdur en um leið sveigjanlegur þegar maður mætir mótstöðu.

Tai chi er æfingakerfi sem hentar fólki á öllum aldri og hentar sérlega vel í okkar hraða samfélagi. Það vinnur á móti streitu, eflir hugarró og eykur orku og úthald, sem gagnast okkur svo í að takast skilvirkara á við okkar hraða samtíma.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Göngum úti í guðsgrænni náttúrunni

Next post

Slökun líkamans á skrifstofunni

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *