Á heimilinuHeimiliðHeimilisbúnaður

Áhrif örbylgjuhitunar á mat

Mikið hefur verið skeggrætt um áhrif örbylgjuofna í matargerð síðustu ár og áratugi. Sumum finnst örbylgjuofninn hið mesta þarfaþing og nota hann við hverja matseld. Aðrir vilja ekki sjá hann, finnst maturinn slepjulegur og óspennandi eftir örbylgjuhitunina.

Ljóst er að matur missir nokkuð af næringargildi sínu við hitun, einhver ensím brotna niður, ýmis konar efnasambönd breytast og hann verður snauðari af vítamínum. Talsvert hefur verið fjallað um að næringargildið minnki enn meira við örbylgjuhitun en venjulega eldun. Engar afgerandi sannanir liggja þó þar að baki og erfitt er að fullyrða að svo sé, en hins vegar er fjöldi rannsókna sem bendir til slíks.

Það er þó þekkt að eitt vítamín rýrnar mun meira við örbylgjuhitun en við venjulega eldun. Það er fólínsýra. Þetta vítamín finnst helst í korni, kjöti, baunum, mjólkurvörum, laxi, túnfiski, rótargrænmeti og grænu laufgrænmeti.

Þekkt rannsókn, sem þó hefur verið nokkuð umdeild, sem framkvæmd var af Dr. Hertels árið 1992, sýndi fram á að þeir sem nærðust mikið á örbylgjuhituðum mat gætu þjáðst af blóðleysi (anemíu).

Einhverjar rannsóknir benda til þess að efni umbreytist við örbylgjuupphitun og til verði krabbameinsvaldandi (carcinogenic) efni sem fólk síðan innbyrgðir.

Önnur rannsókn gaf vísbendingu um að við örbylgjuupphitun eyðast nánast öll flavonoid andoxunarefni úr matnum, en þau efni fyrirfinnast helst í litskrúðugum ávöxtum og grænmeti. Neysla þessa efnis dregur úr líkum á kransæðasjúkdómum, lungnakrabbameini og hjartaáfalli.

Á 8. áratugnum bönnuðu Rússar örbylgjuofna en því banni var aflétt síðar, enda höfðu þeir þróast mikið á þeim tíma.

Eins og áður sagði eru engar óyggjandi sannanir fyrir því að notkun örbylgjuofna sé skaðleg. Þó er margt sem bendir til þess að þeir dragi úr næringargildi fæðunnar og umbreyti efnasamböndum. Fullmargar vísbendingar eru um neikvæð áhrif örbylgjuofna til að fullyrða að þeir séu alveg skaðlausir og öruggir. Vonandi halda rannsóknir á áhrifum örbylgjuofna áfram á komandi árum og færa okkur frekari upplýsingar um áhrif þeirra.
Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Umhverfisvænar vörur

Next post

Pottar og pönnur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.