HeimiliðSnyrtivörur

Andlitsleikfimi

Eitt af því sem að margar konur óttast við það að eldast, er að fá hrukkur! Margar hverjar eyða mjög stórum upphæðum í alls kyns undrakrem sem að samkvæmt auglýsingum á að halda húð kvenna unglegri, mér liggur við að segja, um aldur og ævi. Í mörgum af þessum kremum, eru mikil eiturefni sem að safnast fyrir í líkamanum. En er eitthvað annað í boði fyrir konur og menn sem að hræðast hrukkur á andlitinu.

Já, svarið er andlitsleikfimi! Alveg eins og önnur hreyfing mótar líkamann, þá getur andlitsleikfimi og andlitsnudd mótað vöðvana í andlitinu og aukið blóðflæðið þannig að húðin heldur betur teygjanleika sínum og kemur í veg fyrir hrukkur, bólgur og poka. Besti tíminn til að stunda andlitsleikfimi er þegar að húðin er hreinsuð á kvöldin. Gott andlitsnudd, hrein og vel hirt húð, sýnir fljótt augljósan árangur.

Í hvert sinn sem að þú þrýstir á eða nuddar einhvern líkamspart, þá kemur þú af stað aukinni blóðrás á því svæði. Andlitið er þar engin undantekning. Mjúkur þrýstingur og nudd á andlitið losar um spennu í andlitsvöðunum og leyfir þeim að slaka. Með síendurteknum andlitsæfingum og nuddi, verða vöðvarnir slakir og ásýndin verður afslappaðri og unglegri. Með nuddinu eykst svo blóðrásin og verður andlitið allt bjartara ásýndar og glóir af vellíðan.

  • Góð aðferð til að nudda og efla andlitsvöðvana er að nota fingurgómana með léttum slætti á andlitið, þetta hjálpar sogæðunum að hreinsa húðina og losa um stífluð svæði og henda út úrgangsefnum sem að hafa safnast fyrir í henni.
  • Byrjið á því að nudda með þessum létta slætti undir hökunni. Best er að nota yfirborð naglanna á þetta svæði, fram og til baka, undir og meðfram hökunni og að enda kjálkans, frekar hratt og taktfast. Þetta hjálpar við að síður myndast undirhaka og eykur blóðstreymið á svæðið. Haldið áfram að kjálkaenda í átt að eyrunum, upp andlitið og í kringum munninn, byrjið í sömu átt og sólargangurinn og svo í öfuga átt. Athugið að um leið og komið er uppá andlitið eru fingurgómarnir notaðir.
  • Síðan er haldið áfram í kringum augabrúnirnar og í kringum kinnbeinin. Ekki nota þessa sláttaraðferð í kringum augun, því húðin þar í kring er of þunn og viðkvæm. Til að nudda ennið, skal byrja á gagnaugunum og færa fingurgómana svo að miðju enni og aftur til baka, þar til að allt ennið hefur fengið sinn skammt af nuddi upp að hárlínu. Að lokum skal annaðhvort nota fingurgóma áfram eða kjúkur, framan á fingrum frá kjúkum að yfirborði nagla og byrja undir kinnbeinum og færa sig í átt að eyrunum. Alltaf skal passa að nota léttan slátt og oftast fingurgómana.

Þessar æfingar og nudd ættu að öllum líkindum að gera andlitsvöðvunum mikið gagn og alveg þess virði að prófa. En hins vegar er það líka góð leið, til að líta fram hjá því að hrukkur séu ellimerki, að hreinlega fagna hverri einustu nýrri hrukku með það í huga, að á bak við hverja þeirra liggur reynsla og mikill þroski.

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Hvíttið tennurnar með jarðarberjum

Next post

Húðburstun

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.