Heilsa

Húðburstun

Mikið hefur verið talað og rætt um alls kyns hreinsun upp á síðkastið og höfum við hér í Heilsubankanum ekki verið neinir eftirbátar í þeirri umræðu. Mest höfum við verið að huga að mataræði, föstum og öðrum aðferðum til að afeitra líkamann.

Þegar fólk er að hreinsa líkamann og afeitra hann er gott að þurrbursta húðina. Það örvar sogæðakerfið og styður þannig við afeitrunina.

Fyrsta skrefið er að kaupa sér góðan bursta. Fáið ykkur bursta með náttúrulegum hárum og löngu skafti. Leitið ráðlegginga við val á bursta og fáið leiðbeiningar um hreinsun hans, misjafnt eftir gerð háranna.

Húðburstun örvar blóðstreymi til húðarinnar og fjölgar húðfrumum því örar, burstunin hreinsar dauðar húðfrumur og eins og að ofan greinir örvar hún sogæðakerfið og hjálpar þannig líkamanum að losna við eitur- og úrgangsefni úr líkamanum.

Húðburstun skal gera á þurra húð með þurrum bursta. Best er að bursta húðina áður en farið er í sturtu á morgnana.

Þegar húðin er burstuð skal alltaf stefna að hjartanu. Best er að byrja á fótleggjunum. Fyrst upp að hnjám, bæði að framan, aftan og á hliðum, nokkrum sinnum á hvert svæði. Svo frá hnjám, upp að mjöðmum. Upp rasskinnar og mjaðmir. Gott er svo að taka handleggi, frá úlnlið, upp að öxlum og svo yfir axlirnar. Farið varlega í húðburstunina yfir magann þar sem húðin er viðkvæmari þar. Einnig ættu konur að sleppa því að bursta brjóstin.

Svo er bara að skella sér í sturtuna og um að gera að enda hana á kaldri gusu. Kalda vatnið örvar blóðrásina enn frekar og kemur hita í kroppinn og er sérstaklega frískandi til að koma okkur hressum og kátum inn í daginn.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Andlitsleikfimi

Next post

Eru flugur vandamál?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.