Börn og unglingarFjölskyldanHeimilið

Enn um áhrif hugans á frammistöðu

Um daginn birtum við grein um það hvernig hugurinn getur haft áhrif á bætta frammistöðu í líkamlegum æfingum. Sjá hér.

En það er á fleiri sviðum sem hugurinn getur skipt sköpum varðandi frammistöðu okkar.

Rannsókn hefur verið gerð sem bendir til að ef börn trúa að gáfur geti þróast og aukist, en eru ekki einhver gefin stærð, ná þau betri árangri en börn sem hafa ekki þetta viðhorf.

Rannsakendur við Columbia- og Stanford háskóla í Bandaríkjunum skoðuðu 373 börn, yfir tveggja ára tímabil til að meta hvort mismunandi viðhorf barnanna hefðu áhrif á einkunnir sem þau fengu í stærðfræði.

Í upphafi rannsóknar höfðu öll börnin svipaðar stærðfræðieinkunnir en viðhorf þeirra voru ólík.

Rannsóknin sýndi fram á að börn sem töldu mögulegt að þróa með sér meiri gáfur fóru smám saman að standa sig betur en þeir sem töldu sig þurfa að lifa með þeim gáfum sem þeir fengu í vöggugjöf.

Til að skoða nánar þessar niðurstöður tóku rannsakendurnir 90 börn úr hópnum sem áttu það sammerkt að einkunnir þeirra höfðu versnað yfir tímabilið.

Börnunum var skipt í tvo hópa og voru báðir hóparnir látnir sitja námskeið sem fjallaði um listina að læra. Annar hópurinn fékk fræðslu um kenningar sem fjalla um hæfileika heilans til að þróa með sér meiri gáfur en hinn hópurinn fékk ekki þessa fræðslu.

Munurinn á frammistöðu hópanna var sláandi. Nemendurnir sem fræddust um gáfnakenninguna bættu sig í stærðfræði og fóru einkunnir þeirra hækkandi í stað þess að þær höfðu farið lækkandi áður, en hjá hópnum sem ekki fengu fræðsluna, héldu einkunnirnar áfram að lækka.

Þessi rannsókn sýnir okkur hvað það er gríðarlega mikilvægt að bæði foreldrar og kennarar hvetji börn áfram og þrói með þeim sjálfstraust og trú á að þau geti náð lengra í hverju sem þau taka sér fyrir hendur.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Er sjónvarpið notað sem barnapössun?

Next post

Unglingsstúlkur vilja líkjast fyrirmyndum í tónlistarmyndböndum

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *