Greinar um hreyfinguHreyfing

Hugurinn ber þig hálfa leið þegar kemur að áhrifum æfinganna

Þeir sem sannarlega trúa því að góð líkamleg hreyfing gefi tilætlaðan árangur, ná betri árangri en þeir sem stunda nákvæmlega sömu hreyfingu og annað hvort hugleiða ekki hver árangur gæti orðið eða trúa því ekki að árangur náist.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem gerðar voru af Dr. Ellen Langer og Alia J. Crum, frá Harvard og voru birtar í febrúarhefti ritsins Psychological Science.

Samkvæmt þessum niðurstöðum kemur enn og aftur í ljós hve mannshugurinn er öflugur og hvernig í raun hann stjórnar allri líðan, andlegri og líkamlegri.

Hópi hótelræstikvenna var sagt, að við þrif á 15 herbergjum á hverjum degi stunduðu þær næga líkamlega hreyfingu til að viðhalda heilbrigði. Fjórum vikum síðar voru þær grennri og í betra líkamlegu ástandi, en sá hópur ræstikvenna sem ekki fékk þessi sömu skilaboð, en unnu sömu störf og fengu því svipaða líkamlega hreyfingu.

Þessar niðurstöður styðja þær hugmyndir sem að uppi hafa verið, um að þjálfun geti tengst placebo-áhrifum, þ.e. að hugurinn og trúin á það sem verið er að stefna að, spili stærri rullu en oft er haldið fram. Á meðan áhrif lyfleysu eða gervipilla er víðast hvar tekin gild, hefur ekki fyrr verið rannsökuð þessi sama virkni á placebo- eða gerviáhrifum hreyfingar og þjálfunar, er haft eftir þeim Langer og Crum.

Rannsóknirnar voru gerðar með 84 ræstikonum á 7 mismunandi hótelum. Ræstikonur á 4 af þessum 7 hótelum fengu ofangreind skilaboð um næga hreyfingu, á meðan að konunum á hinum 3 hótelunum var ekkert sagt. Ýmsar mælingar, á heilsu og líkamlegu ástandi allra kvennanna, voru gerðar í upphafi rannsóknarinnar og svo aftur 4 vikum síðar.

Áður en að rannsóknin byrjaði, voru u.þ.b. 67% þátttakendanna sem að svöruðu því til, að þær æfðu ekki reglulega og 33% þeirra svöruðu því til að þær æfðu alls ekkert. Fjórum vikum síðar,svöruðu 79.7% kvennanna úr hópnum sem að hafði fengið skilaboðin, því til að að þær væru í reglulegri þjálfun. Einnig hafði þessi sami hópur misst tæplega kíló af líkamsþyngd sinni að meðaltali, blóðþrýstingur þeirra lækkað um 10%, ásamt því að fituprósenta (BMI) þeirra hafði lækkað og sentimetrum fækkað yfir mjaðmir.

Allar þessar breytingar voru ófrávíkjanlega mun meiri hjá þessum hópi, heldur en hjá þeim hópi sem að fengu engin skilboð.

Ein af hugsanlegum skýringum gæti verið að konurnar í þeim hópi sem að fengu skilaboðin, hafi eitthvað breytt um lífsstíl, borðað hollari mat eða meðvitað hreyft sig meira við vinnu sína, en samkvæmt rannsakendunum, þeim Langer og Crum, var það ekki. Því væri ekki lífsstílsbreytingum um að þakka.

Augljóst þykir í ljósi þessara niðurstaðna að placebo- eða gerviáhrif virka í þessu samhengi sem öðrum. Það er ljóst, að heilsa, hvort heldur er líkamleg eða andleg, snýst mikið til um, beint eða óbeint, hugann, trú og vissu hvers og eins um sitt ástand.

 

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Að setja sér "rétt" markmið

Next post

Göngum úti í guðsgrænni náttúrunni

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *