JólUmhverfiðUmhverfisvernd

Jólagjafahornið – ,,Njótum eða nýtum”

Verum umhverfisvæn í hugsun fyrir jólin

10 hugmyndir að ódýrum, persónulegum jólagjöfum, með umhverfisvernd að leiðarljósi

Við Íslendingar erum þekktir fyrir að fara á argandi eyðslufyllerí í desember og liggja svo í timburmönnum í janúar og febrúar.

Og hvað fara svo peningarnir í og má kannski verja þeim betur án þess að skyggja á gleðina?

Hversu mikið er fjárfest í dauðum hlutum sem eiga sér stuttan lífdaga, rykfalla í hillum eða geymslum og enda svo að lokum á haugunum. Hversu mikið er til af hlutum á heimilum sem aldrei eru notaðir. Barnaherbergin eru yfirfull af dóti sem aldrei er litið á, fataskáparnir smekkfullir af fötum sem jafnvel hafa lítið sem ekkert verið notuð, eldhússkáparnir troðfullir af eldhúsáhöldum sem enginn hefur not fyrir, geymslurnar yfirfullar og svona má lengi telja.

Þarna fer gríðarlega mikið af verðmætum til spillis, bæði fjármunum, dýrmætu hráefni, orku og vinnustundum. Væri ekki ráð að hugsa út í hvernig við getum verið umhverfisvænni í hugsun og gerðum fyrir þessi og næstkomandi jól.

Við komum hér með 10 uppástungur í hugmyndabankann yfir umhverfisvænar jólagjafir. Hvernig væri að draga úr hlutasöfnun og benda á gjafir sem hægt er að nýta og/eða njóta. Ef fólk ætlar að kaupa hluti þá er hægt að vera meðvitaður um að velja hluti sem annað hvort eru unnir úr umhverfisvænum efnum, búnir til á heimamarkaði svo stemmt sé stigum við stöðugt aukinni mengun vegna flutninga eða að hluturinn vegi á annan hátt upp á móti ágangi okkar á auðlindir jarðar.

 

Hugmynd 1: Í stað þess að gefa börnunum okkar peninga til að fara og kaupa jólagjafir þá getum við hvatt þau til að búa til gjafirnar sjálf.

 • Þau geta samið sögu og myndskreytt handa afa og ömmu
 • Sungið inn á geisladisk fyrir pabba og mömmu
 • Tekið upp leikatriði á videóupptökuvélina fyrir vinina
 • Föndrað eitthvað fallegt fyrir gömlu frænkurnar
 • Látið taka myndir af sér og útbúið skjal í tölvunni með skemmtilegum athugasemdum um sitt daglega líf fyrir stóra bróðir í útlöndum og svona má lengi telja.

 

Hugmynd 2: Gefið viðkomandi gjafabréf á ykkar eigin framlög

Útbúið fallegt kort eða skjal þar sem þig gefið ykkar tíma og vinnuframlag með ávísun á einhverja upplifun.

 • Til dæmis getið þið útbúið gjafakort handa makanum þar sem þið gefið 5 tíma í nudd hjá ykkur sjálfum og þið getið útbúið litla flösku með nuddolíu sem ávísun á komandi vellíðan. Þið getið jafnvel bókað ákveðinn tíma, t.d. ákveðið kvöld í vikunni sem þið vitið að ekkert sérstakt er um að vera.
 • Útbúið gjafabréf til vinanna á kvöldverðarboð heima hjá ykkur með indversku þema ákveðinn dag í janúarmánuði
 • Útbúið gjafabréf fyrir vin/vinkonu fyrir sumarbústaðarferð um ákveðna helgi þar sem þið munið sjá um allan undirbúning – bara að mæta með tannbursta og náttföt.
 • Gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn.

 

Hugmynd 3: Í stað þess að gefa dauða hluti sem við vitum ekki hvort viðkomandi á eftir að vera ánægður með, gefum þá gjafabréf á námskeið sem kemur inn á áhugamál viðkomandi

 • Ullarþæfingarnámskeið
 • Námskeið hjá Endurmenntunarstofnun
 • Námskeið í söng eða leiklist
 • Fluguhnýtingarnámskeið … o.fl. o.fl. o.fl.

 

Hugmynd 4: Gefum ávísun á upplifanir

 • Miða í leikhús
 • Miða í húsdýragarðinn
 • Helgi á hóteli úti á landi
 • Dekurdag á heilsuræktarstöð
 • Tíma hjá spákonu eða miðli
 • Tíma í golfhermi

 

Hugmynd 5: Búum sjálf til jólagjafirnar

 • Útbúum fallegar skreytingar til gjafa
 • Skreytum kerti til gjafa
 • Búum til konfekt eða smákökur og skreytum glösin með efnisbút með jólamyndum og jólaborða
 • Búum til saft eða sultu eða heimatilbúinn líkjör eða eitthvað annað gómsætt og setjum í falleg glös eða flöskur

 

Hugmynd 6: Gefum persónulegar gjafir

 • Útbúum persónulegt myndaalbúm með myndum af okkur sjálfum og þeim sem við erum að gleðja
 • Setjum saman geisladisk með uppáhalds tónlist viðkomandi
 • Semjum ljóð eða smásögu fyrir viðkomandi
 • Römmum inn fallega ljósmynd sem hefur tilfinningagildi fyrir viðkomandi eða teiknum/málum mynd og setjum í ramma

 

Hugmynd 7: Gefum vandaðar og dýrar vörur til neyslu sem viðkomandi mundi jafnvel ekki leyfa sér að kaupa:

 • Lífrænt ræktað gæða-rauðvín
 • Lífrænt ræktaða ólífuolíu og edik
 • Gæðakrydd
 • Keyptu lífrænt ræktaðar hnetur og þurrkaða ávexti og blandaðu þeim í fallega skreytta poka til gjafa, í stað konfekts

 

Hugmynd 8: Kaupum jólagjafir þar sem andvirðið rennur til styrktar góðu málefni:

 • Mörg félagasamtök halda basar fyrir jólin, upplagt að versla jólagjafirnar þar
 • Verndaðir vinnustaðir hafa ýmis konar varning til sölu sem oft henta vel til gjafa
 • Á jólamörkuðunum eru félagasamtök gjarnan með sölubása og þar er oft hægt að gera góð kaup
 • Hægt er að gefa peningagjafir í nafni þeirra sem við viljum gleðja um jólin, til styrktar góðu málefni og fær viðkomandi þakkarkort þar að lútandi

 

Hugmynd 9: Gefum efnislegar gjafir sem eru unnar úr umhverfisvænu hráefni eða endast vel og eru gagnlegar

 • Flíkur úr ull, bómull eða öðrum náttúrulegum efnum
 • Flíspeysur, en þær eru oft unnar úr endurunnu plasti
 • Leikföng sem eru úr umhverfisvænu hráefni, s.s. tré
 • Leikföng sem endast vel og lengi og eru mikið notuð, eins og snjósleði og hjól
 • Eigulegar bækur, áhugaverðar handbækur og fræðibækur

 

Hugmynd 10: Gefum eitthvað af sjálfum okkur í anda jólanna

 • Útbúið lista yfir þær 10 óskir sem þú óskar viðkomandi frá þínu hjarta
 • Skrifaðu viðkomandi hjartnæmt bréf þar sem þú tjáir hvað samband ykkar eða vinátta sé þér mikilvæg
 • Settu saman litla ljóðabók með þínum uppáhalds ljóðum sem hafa á einhvern hátt snert þig persónulega
 • Settu saman lista yfir helstu kvikmyndir eða bækur sem þú mælir með, sem á einhvern hátt breyttu sýn þinni á lífið og tilveruna

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Jólatré og umhverfisvernd

Next post

Skaðsemi farsímanotkunar

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.