FjölskyldanHeimiliðSjálfsrækt

Látum okkur alltaf líða eins og við eigum heiminn

Vorið er sá tími sem að mörgum einstaklingum líður einna best. Líf er að vakna allt í kring, brumin koma á trén og krókusarnir kíkja upp úr snjónum í garðinum. Sólin skín og allt verður svo bjart og fallegt.

Í janúar finnum við oftar en ekki fyrir pressunni um að nú þarf að byrja að æfa, að nú sé tíminn til að koma sér í form fyrir sumarið. Í febrúar og svo í mars virðast lífsstílsbreytingar verða einna auðveldastar. Margir byrja einmitt á lífsstílsbreytingum fyrstu mánuði ársins.

Ýmsar leiðir eru farnar, byrjað í ræktinni, farið í föstur og hreinsunarkúrar af ýmsum toga eru vinsælir. Einnig er þetta oft tíminn sem að mataræðinu er breytt. Eftir kræsingar hátíðahaldanna yfir jól og áramót, fyllast borðin af fiski-, grænmetis- og hollusturéttum. Þetta er allt saman gott og gilt, sérstaklega ef að hugur fylgir breytingum og þær eru gerðar með jákvæðu hugarfari.

Hugarfarið er mikilvægast. Það að vera ánægður með líkama sinn og líðan. Geislandi fegurð og glæsileiki kemur að innan, sama hvort að nokkur aukakíló séu til staðar eða ekki. Þau hvort eð er falla algjörlega í skuggann ef að einstaklingurinn geislar af gleði og ánægju.

Heilbrigður, ánægður og geislandi einstaklingur sinnir frumþörfum sínum vel, hugar að reglulegum svefni, nærir líkama sinn með hollustu og hreyfir sig reglulega. Einnig þarf að huga vel að félagslegum tengslum, sem eru mjög mikilvæg til að halda jafnvægi á góðri líðan. Ýmislegt annað er gott að hafa í huga til að láta sér líða vel.

Gott er að vita að hreyfing losar endorfín, oft kallað gleðihormón líkamans, það að raula lagstúf og marsera með í takt, eykur gleði bæði innra með viðkomandi og sennilega þeirra sem að verða á vegi hans líka. Höfuðnudd virkjar blóðflæði til heilans og gefur aukna orku og vellíðan.

Það að segja upphátt þrjú orð um hve dásamleg persóna þú ert, að nefna upphátt þrjá líkamsparta sem að þú ert hreykin/n af og að rifja upp þrjá atburði í lífi þínu sem að þú ert virkilega stolt/ur af að hafa tekist að gera, hjálpar þér við jákvætt álit á sjálfum þér. Þessi atriði hvetja þig til að hugsa jákvætt og uppbyggjandi og fá þig til að brosa á hverjum einasta morgni um leið og þú framkvæmir þessa stuttu, en áhrifaríku athöfn.

Það að trúa á sjálfan sig og hvers þú getur áorkað, fær aðra til að trúa þér og treysta. Að bera sig ávallt vel, ganga upprétt/ur með bros á vör, fær aðra til að brosa og andrúmsloftið í kringum þig verður léttara á allan hátt.

Sá sem að tileinkar sér hegðun sem þessa, er léttur, kátur og geislandi einstaklingur sem augljóslega líður vel og getur svo sannarlega farið um eins og hann eigi heiminn.

 

„Brostu framan í heiminn og heimurinn mun brosa við þér”

 

Sjá einnig: Jákvæðni og betri heilsa, Litlu atriðin og aukakílóin

 

 

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Geðorðin 10

Next post

Skammtafræði (Quantum Physics)

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *