UmhverfiðUmhverfisvernd

Getum við dregið úr plastnotkun?

Notkun plastefna eykst í sífellu og sjálfsagt geta fæstir ímyndað sér veröldina án plasts. En plastinu fylgja stór vandamál. Fyrir utan það að sumar plasttegundir geta smitað eiturefnum í fæðu eins og áður hefur verið fjallað um á Heilsubankanum, safnast ómælt magn af plasti upp í náttúrunni og brotnar ekki niður. Hægt er að endurnýta plast, en aðeins lítið brot af því skilar sér inn á endurvinnslustöðvarnar.

Mikið af plastinu fýkur út á haf og er Kyrrahafinu gjarnan líkt við stóran plastgraut. Sem dæmi má nefna að þar er massi plasts 6 sinnum meiri en massi svifa. Í norðurhluta Kyrrahafsins er talið að plastefni og plasthlutir verði yfir milljón sjófuglum, um 100.000 sjávarspendýrum og enn fleiri fiskum að bana ár hvert.

En hvað getum við almenningur gert? Er ekki hreinlega verið að troða plastinu að okkur úr öllum áttum og oft ekki völ á öðru en að nota það?

Jú, við getum samt gert heilmargt. Hér að neðan koma nokkrar hugmyndir.

Við getum:

  • Hætt að kaupa innkaupapoka og notað innkaupatöskur í staðinn.
  • Sleppt því að kaupa vatn eða gos á flöskum. Við getum sjálf sett vatn í flöskur eða búið okkur til Soda stream
  • Dregið úr notkun plastbolla, -diska og -hnífapara.
  • Keypt leikföng úr náttúrulegum efnum frekar en plasti.
  • Reynt að versla sérstaklega þær vörur sem eru í litlum plastumbúðum eða verslað í stórum einingum sem hlutfallslega fylgir minna plast.
  • Hætt að nota plastfilmu (og aldrei þegar verið er að hita upp mat).
  • Sneytt fram hjá vörum í niðursuðudósum því innan í niðursuðudósum er plastefnið bisphenol A. Kaupum frekar vörur í glerkrukkum.
  • Hvatt foreldra til að nota fjölnota bleyjur á börn sín, þó ekki væri nema bara stundum.
  • Valið okkur hluti til heimilisins sem ekki eru úr plasti, t.d. sturtuhengi úr bómull, salatáhöld úr tré, skálar úr gleri o.s.frv.
  • Gefið vinkonum okkar álfabikarinn svo þær geti hætt að nota dömubindi.

Eins og þekkt er getur enginn einn gert allt en hver og einn getur gert þó nokkuð. Það hættulegasta umhverfinu okkar er trúin á að við getum ekki haft áhrif og nú er um að gera að setja sér markmið og sjá hvort ekki megi auðveldlega draga úr plastnotkuninni.

 

Höfundur: Helga Björt Möller

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Hendum þriðjungi af keyptum mat

Next post

Sóun Íslendinga

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *