MataræðiÝmis ráð

Gleðilega hátíð? Aðventuhugleiðing Ingu Kristjánsdóttur

“Nú er að koma að þessu eina ferðina enn, ég veit bara ekki hvað ég á að gera”.

“Ég er að spá í að flytja til Kína”.

“Halda þeir nokkuð jól þar, annars?”

Svona byrjaði eitt viðtalið hjá mér, í liðinni viku.

Þetta var kona sem kom til mín í ráðgjöf, sem þjáist af skelfilegum jólakvíða.

Hún segir ekki farir sínar sléttar þegar kemur að jólahlaðborðunum, partýunum og boðunum.

Segist alltaf “klúðra öllu” og “missa algjörlega tökin á mataræðinu”.

Hún segist ekki hafa neina sjálfstjórn (samt búin að ala upp 4 börn og er hæstráðandi á sínum vinnustað) og finnst hún ömurlegur “looser”.

Hún segist troða í sig eins og togarasjómaður (engir fordómar, bara hennar orð) og fitni yfirleitt um 10 kíló yfir hátíðirnar.

Ég byrjaði á að reyna að fullvissa hana um að það væri ekkert að sjálfstjórninni heldur kannski frekar sjálfselskunni.

“Nú”, sagði hún, “ég er nú einmitt allt of góð við mig”.

En það er í raun algjörlega öfugt.

Það felst engin væntumþykja í eigin garð í því,  að troða sig út af einhverju sem við vitum að fer illa í okkur og gerir okkur jafnvel veik.

Það er góð regla að horfa á það sem upp í munnin skal og segja við sjálfan sig:

Er þetta gott fyrir mig?

Ef svarið er já, þá endilega borðaðu.

Ef ekki, láttu það þá eiga sig.

Þetta krefst að sjálfsögðu heiðarleika í eigin garð og það er auðvitað einfalt að plata sjálfan sig.

Það getur verið gaman að skoða hvað það er sem kveikir á ofátinu (íkveikjurnar).

Það geta verið gamlar venjur (Nóa konfektkassinn í heilu lagi á jólanótt), einhverjar fæðutegundir (efstar á vinsældalistanum eru sykur og hveiti), félagslegt át (allir hinir eru að þessu), og svo eru það gömlu frænkurnar (fáðu þér nú aðeins meira vinan, þetta er nú bara fyrirferðin).

Það er gaman að kafa aðeins inná við og skoða hvar hundurinn liggur grafinn hjá okkur.

Þegar við svo höfum áttað okkur á því, þá er hægt að bregðast við.

Fyrrnefnd kona komst að því í viðtalinu, að hún hafði nokkuð góða stjórn á hlutunum, þar til hún lagðist upp í rúm á jólanótt með bók og konfekt.

Þá varð fj…… laus og eftir það fór allt úr böndunum.

Við ákváðum að hún myndi einfaldlega sleppa þessum bókalestri, sitja bara í stofunni og rabba við fjölskyldumeðlimina.

Það verður spennandi að heyra í henni í janúar.

Oft getur það tekið nokkur jól að laga svona slæmar venjur og læra nógu vel á sig til að ná að forðast íkveikjurnar, en það er allt í lagi.

Mikilvægast er að byrja og vinna jafnt og þétt í málunum.

Það mikilvægasta af öllu er þó að njóta þess sem við borðum.

Ef við fáum okkur konfekt, köku eða gosdrykki með slæmu samviskubiti, þá fer það öfugt ofaní okkur, það er á hreinu.

Ef við aftur á móti njótum hvers bita………… ummmm,  þá er líklegra að okkur verði ekki illt, ekkert ofát og enginn skaði er skeður.

Það kemur líka alltaf nýr dagur á morgun og þó við höfum farið út af sporinu í dag þá er engin ástæða til að gera það næstu vikuna, eða hvað?

Mikilvægt er að muna að við höfum alltaf val í lífinu, og það á líka við um val á mat.

Með aðventukveðju,

Inga næringarþerapisti.

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Að fasta

Next post

Hnetur og möndlur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *