Á heimilinuHeimiliðHeimilisbúnaður

Bisphenol A – eiturefni í pelum og öðrum plastílátum

Um þessar mundir er mikil vakning gegn ýmsum eiturefnum sem eiga greiðan aðgang að líkama okkar. Eitt af þessum efnum er bisphenol A sem oft er táknað með #7 á plastumbúðum. Þetta efni er gríðarlega algengt í plastílátum, drykkjarflöskum og matarílátum úr plasti, innan í niðursuðudósum og í pelum. Efnið er gjarnan notað til að herða plast og er oftast að finna í glansandi hörðum plastvörum.

Efnið bisphenol A getur líkt eftir hormóni og valdið truflunum á innkirtlastarfsemi manna og dýra. Búið er að sanna að aðeins lítið magn af efninu hefur skaðleg áhrif á dýr. Ljóst er að efnið fyrirfinnst í nánast hverjum Vesturlandabúa en efnið hefur lengi haft greiðan aðgang að líkama okkar frá plastvörum.

Þau áhrif sem efnið er talið hafa á líkamann er röskun á innkirtlastarfsemi, fækkun og vanvirkni sæðisfrumna hjá karlmönnum, skemmdir á æðakerfi, auknar líkur á brjóstakrabbameini, snemmbær kynþroski, offita vegna þess að efnið ýtir undir framleiðslu fitufrumna, eitrun í taugakerfi, tengsl við geðklofa og fleira.

Þegar plastflöskur sem innihalda bisphenol A eru hitaðar upp, eins og t.d. pelar fyrir ungabörn, eru auknar líkur á að efnið leysist lítillega upp og blandist innihaldinu. Það er því varhugavert að gefa ungbörnum pela sem inniheldur bisphenol A því þau eru enn viðkvæmari fyrir eiturefnum en fullorðnir.

Nokkur ríki Bandaríkjanna og einhver Evrópulönd hafa sett strangar skorður á notkun bisphenols A í vörum á markaði. Árið 2006 var sala pela sem innihalda bisphenol A bönnuð í San Francisco en banninu var ekki fylgt eftir. Í Kanada eru miklar rannsóknir í gangi á skaðsemi efnisins og í athugun hvort það verði bannað með öllu.

Bisphenol er gríðarlega algengt í plastvörum og í langflestum pelum. Þó eru pelar án efnisins framleiddir og full ástæða til að leita þá uppi. Þeir eru m.a. fáanlegir í lyfjaverslunum á Íslandi og á fleiri stöðum. Vilji fólk draga úr nálgun við efnið er kjörið að nýta sér málm- eða glerflöskur undir drykki, nota plastbrúsa sem merktir eru #5 því það efni er sagt skaðlaust og forðast skal hert plastmataráhöld (sérstaklega fyrir lítil börn) nema geta fullvissað sig um að þau innihaldi ekki eiturefnið. Sé bisphenol A í plastvörunum sem notaðar eru er mikilvægt að nota mild þvottaefni á þær, sleppa því að þvo þær í uppþvottavél. forðast að þær hitni og þrífa þær með svampi. Það dregur úr líkum á að efnið leysist upp og berist út í matvælin. Þar sem bisphenol A er gjarnan í niðursuðudósum er vert að benda á að versla frekar vörur sem eru í glerkrukkum.

Þess ber að geta að Landspítalinn hefur verið að versla inn pela sem ekki innihalda bisphenol A.

Höfundur: Helga Björt Möller, greinin birtist fyrst á vefnum í apríl 2008

Previous post

Pottar og pönnur

Next post

Skaðleg efni í plasti

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.