Eldri árinFjölskyldanHeimilið

Lengra æviskeið

Alla langar að lifa lengi og við sem besta heilsu. Meðalævi fólks lengist sífellt og æ fleiri ná háum aldri. Með þekkingu fólks á hollum lífsháttum lengist síðasta æviskeið okkar og fjöldi fólks lifir í um 20-30 viðburðarrík og skemmtileg ár eftir að það hættir launavinnu. Með hverjum áratugnum sem líður sjáum við sífelt fleiri hrausta aldraða á áttræðis-, níræðis- og jafnvel á tíræðisaldri.

Allir kaflar æviskeiðsins hafa fjölbreytileika og mismikla skemmtun í för með sér og er síðasti hluti ævinnar engin undantekning þar á. Enn á ný verða breytingar með óteljandi mörgum og óvæntum ævintýrum, þ.e. ef að viðkomandi vill njóta þessara ára og hefur heilsu til.

Á öldinni sem leið, lifði fólk oft ekki mörg ár eftir að launavinnu lauk og margir voru tilneyddir til að vinna mikið og langt fram á aldur til að hafa ofan í sig og á. Þá bjuggu líka fjölskyldurnar mun þrengra og oftar en ekki, nokkrar kynslóðir saman. Allir hjálpuðust að, deildu gleði og sorgum og lærðu líka hver af öðrum.

Nú eru tímarnir mikið breyttir. Þjóðfélagið hefur tekið miklum stakkaskiptum að öllu leyti, í búsetumálum, vinnumálum, heilbrigðismálum og áfram mætti lengi telja. Um langflestar af þessum gríðarlegu breytingum, er hægt að segja að þær hafi verið til batnaðar. En svo eru aðrir þættir sem fylgt hafa þessum breytingum, sem að eru mjög miður.

Í lífsgæðakapphlaupi nútímans hefur samverustundum fækkað stöðugt. Foreldrar og börn hafa yfirdrifið nóg fyrir stafni og oft er það svo að fjölskyldumeðlimir sjást varla saman á heimili sínu nema á hlaupum. Lítill sem enginn tími fer í að hjálpast að, deila umhugsunarefnum og sinna hvoru öðru. Og svo vill það verða að þeir sem að hafa sig minnst í frammi gleymast og fá því sama og engan tíma með þeim sem þeim þykir vænst um.

Hér er ég að vitna í þá sem elstir eru í fjölskyldunum. Þessir aðilar búa sjaldnast hjá eða nærri sínum nánustu, eins og tíðkaðist á flestum heimilum þegar að þeir voru að alast upp. Oftar en ekki eru þetta einstaklingar þjóðfélagsins sem að hafa sig minnst í frammi og eru ekki með tilætlunarsemi og heimtugang, enda aldir upp við að þurfa að sætta sig við og bjarga sér með mun minna, en það sem við gerum kröfur á í dag.

Fyrir suma og vonandi langflesta er það gaman og skemmtilegt að eldast og takast á við næsta lífsskeið, “eftir vinnu” skeiðið. En til að njóta þess þarf heilsan að vera sem best, bæði líkamleg heilsa og ekki síður andleg og tilfinningaleg heilsa.

Við þurfum að nota fyrri æviskeið til að leggja inná heilsubanka okkar sjálfra, spara til seinni tíma. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhugur og samkennd, fjölskyldubönd og tengsl við hvort annað, hjálpar okkur til að halda góðri heilsu, allt eins og heilbrigt mataræði og lífstíll. Hugsum vel um okkur sjálf og einnig um hvort annað. Njótum allra æviskeiða og gerum okkur þessi auka æviár að tilhlökkunarefni og gleði.

Guðný Ósk Diðriksdóttir
Hómópati

Previous post

Höldum áfram að læra

Next post

Getum við gert betur?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *