Á heimilinuHeimiliðHreinsiefni / Þriftips

Skaðleg efni á heimilum

Það kann að hljóma undarlega en við komumst ekki eingöngu í snertingu við mengun í umferðinni, í verksmiðjum og á fleiri stöðum utan veggja heimilisins. Mengun getur nefnilega líka átt sér stað í húsunum okkar. Fjöldinn allur af tilbúnum efnum sem búin eru til á tilraunastofum fylla skápana, hreingerningavörur, snyrtivörur, skordýraeitur, leysiefni og fleira.

Ef við lesum aftan á umbúðir þessara efna má sjá orð eins og POISON/DANGER sem þýðir að efnið er mjög eitrað og aðeins nokkrir dropar af því gætu drepið manneskju. WARNING þýðir að efnið er frekar eitrað og neysla teskeiðar af því gæti leitt til dauða. CAUTION merkir svo minni eituráhrif, samt gætu tvær matskeiðar af efninu drepið. STRONG SENSITIZER þýðir að efnið getur kallað fram mismunandi ofnæmisviðbrögð hjá líkamanum. Það er því nauðsynlegt að lesa aftan á umbúðir þegar vara er keypt og vera meðvitaður um þau efni sem hún inniheldur.

Annie Berthold, höfundur bókarinnar Better Basics For The Home lenti í vinnuslysi fyrir um þremur áratugum. Það kom upp gasleki á veitingastað sem hún vann á og 70 manns þurftu að leggjast inn á spítala vegna eitrunar sem gasið olli á öndunarfærum þeirra. Afleiðing slyssins hjá Annie varð svo ofnæmi fyrir allskonar tilbúnum efnum og lélegt ónæmiskerfi. Eftir að hafa reynt að forðast mengun og slæmt loft í nokkur ár áttaði hún sig á að það voru mengandi efnin inni á heimilinu sem ollu slæmri heilsu hennar. Hún fór að leita nýrra leiða í heimilishaldi, reyndi að sneiða hjá tilbúnum efnum og skaðlegum, án þess þó að það kæmi niður á hreinlætinu. Hún dró fram gömlu húsráðin sem höfðu varðveist í gegnum kynslóðir, prófaði, henti út og hélt eftir þeim sem virkuðu. Árangurinn varð frábær og Annie er með hugmynd af náttúrulegum efnum fyrir nánast hvað sem er sem varðar heimilishaldið.

Þó að efni sé náttúrulegt er þó ekki víst að það geri líkamanum gott. Mörg náttúruleg efni þarf að nálgast með varúð, þau geta brennt, ert eða valdið öðrum óþægindum. Í gömlu húsráðunum er líka margt sem ástæða er til að taka út nú í dag þegar rannsóknir hafa sýnt að mörg efni sem áður þóttu örugg geta verið skaðleg heilsunni. Það er samt heilmargt í gömlu húsráðunum sem er fullkomlega gilt í dag og jafnvel betra en nútímaaðferðir.

 

 

Nokkur efni sem algengt er að séu á heimilinum og ber að varast alveg sérstaklega eru helst:

 

Skordýraeitur – getur haft mjög slæm áhrif á ónæmiskerfi fólks, valdið taugaskaða auk mjög slæmra áhrifa sem þau hafa á lífríkið. Þau eyðast seint og illa úr náttúrunni.

Eiturefni eins og klór og ammoníak – Klór er sérstaklega hættulegt þegar það gengur í samband við ammoníak eða sýrur eins og edik. Þá losna mjög eitraðar lofttegundir úr efninu. Hið sama gildir þegar klór fer út í skólpvatn, þá getur það gengið í sambönd við önnur efni og myndað mjög skaðlegar lofttegundir. Klór getur verið krabbameinsvaldandi og truflað innkirtlastarfsemi. Ammoníak getur valdið krónískum bólgum.

Þungamálmar eru mjög eitraðir – Blý (sem var oft í glervörum) getur verið krabbameinsvaldandi, orsakað stökkbreytingar og taugaeitranir. Nálægð við það getur valdið heilaskemmdum, hausverk, þreytu, svefntruflunum, beina- og vöðvaverkjum, nýrnaskaða og dauða. Kvikasilfurseitrun getur valdið heilaskaða, minnistapi, nýrnasjúkdómum, ófrjósemi og dauða.

Hvarfgjörn, lífræn efnasambönd – eru efni sem gufa upp, tengjast öðrum efnum og geta myndað mjög skaðlegar lofttegundir. Meðal þessara efna eru ýmis konar leysar og formaldehýð. Áhrifin sem þessi efni geta haft á líkamann eru m.a. krabbamein, truflun á innkirtlastarfsemi, taugaskemmdir og ofnæmi.

Auk þessa er margt sem bendir til þess að mjúkt plast geti verið mjög skaðlegt. Efni sem kallast þalöt (phthalate) eru gjarnan sett í plast til að gera það sveigjanlegt. Þalöt hafa áhrif á innkirtlastarfsemi og því eru talsverðar líkur á að plast geti orsakað breytingu á hormónastarfsemi hjá fólki.

 

Á Heilsubankanum munu birtast á næstunni ýmsar hugmyndir af efnum til heimilishalds sem má nota í stað hinna “dæmigerðu” efna sem við kaupum tilbúin úti í búð. Flestar hugmyndir koma frá gömlu húsráðunum og virka vel, eru einfaldar, umhverfis- og heilsuvænar. Gætið þess þó ætíð að merkja allar umbúðir vel og geyma efnin þar sem börn ná ekki til.

 
Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Einföld ráð til að gera góða lykt á heimilinu

Next post

Vatn og sápa

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *