Frekari meðferðirMeðferðir

Nálastungur

Grunnhugmyndin að baki nálastungumeðferðinni er sú að koma jafnvægi á lífsorkuna (Chi) eða öllu heldur á flæði hennar. Lífsorkan streymir aðallega um ákveðnar orkurásir í líkamanum sem liggja rétt undir húðinni. Hver orkurás er tengd ákveðnu líffæri. Með því að stinga nálum í valda punkta, sem valdir eru út frá ástandi einstaklingsins, er unnið að því að koma aftur á jafnvægi lífsorkunnar með því ýmist að auka eða draga út orkuflæðinu.

Í upphafi meðferðar leitar meðhöndlarinn að ákveðnum orkupúlsum sem fundnir eru á úlnlið viðkomandi. Þessir púlsar eru alls sex talsins og endurspegla jafnvægi innan orkubrautanna. Út frá þessari skoðun eru punktarnir valdir sem nálarnar eru settar í.

Nálastungum er beitt gegn langvarandi veikindum jafnt sem bráðaveikindum og meiðslum, auk þess sem nálastungur eru notaðar sem fyrirbyggjandi meðferð.

Breytingaskeiðið og heildrænar meðferðir

Þriðja grein af fjórum

Í gömlum kínverskum fræðum er lítið eða ekkert að finna um breytingaskeið kvenna en þeim mun meira um viðhald góðrar heilsu. Taóisminn kennir að til þess að eldast heill á sál og líkama sé mikilvægt að vera í takt við þá alheimsorku sem stjórnar árstíðunum á jörðinni og stýrir mismunandi lífsskeiðum okkar gegnum lífið.

Í gamla Kína var reiknað með að fólk lifði um og yfir 100 ár við góða heilsu ef farið væri eftir náttúrulögmálunum og lifað í samræmi við þau. En ef lifað er á skjön við lögmálin, brennum við hraðar upp, líkt og kerti við opinn glugga.

Við getum skoðað lífið sem ferli eða ferðalag í gegnum elementin fimm:

Vorið(Viður)þegar líf vaknar fullt af þrótti og orku – æskan.
Sumar(Eldur)þegar allt er í fullum vexti og blóm að springa út – unglingsárin – gelgjuskeiðið.
Síðsumar(Jörð)þegar ávextir ná fullum þroska – fullorðinsárin, fjölskyldumyndun, barnsfæðingar.
Haust(Málmur)þegar allri uppskerunni er safnað saman og komið í hús. Næði til að leita inn á við og flokka það sem máli skiptir frá hisminu, tími uppgjörs – breytingaskeiðið.
Vetur(Vatn)það ríkir kyrrð í náttúrunni, elli og viska. Til þess að kona geti notið vetursins í lífi sínu þarf hún að hafa haldið uppskeruhátíð haustsins og þakkað fyrir það sem lífið hefur fært henni fram að þessu.

Konan er eina spendýrið sem fer í gegnum breytingaskeiðið. Öll önnur spendýr geta átt afkvæmi fram á dauðadag. Þetta er snjöll leið náttúrunnar til að lengja líf okkar, en okkar að sjá til þess að við séum heilsufarslega það vel á okkur komnar að við getum notið þess. Það gerum við með því að borða hollan mat, hreyfa okkur og hvíla svo nokkuð sé nefnt.

Það sem við borðum og drekkum hefur gríðarlega mikið að segja um hvernig okkur líður andlega jafnt sem líkamlega. Í náttúrunni má finna mat sem inniheldur estrogen og prógesteron, sem getur komið að gagni á meðan líkaminn er að venjast minnkandi hormónamagni. Soya afurðir svo sem tofu, miso og soyabaunir innihalda phytoestrols sem hefur svipaða mólíkúl uppbyggingu og estrogen, og hefur verið notað til að létta einkenni breytingaskeiðs án aukaverkana. Prógesteron má meðal annars fá úr eftirtöldum matvælum: anis, sellery, ginseng og alfalfa.

Vegna minnkandi framleiðslu estrogens hægir á kalsíum upptöku og því ber að forðast kaffi, gosdrykki, mikið unninn mat, reykingar og áfenga drykki. Matur sem inniheldur kalsíum er grænt laufgrænmeti: spínat, brokkolí og steinselja. Einnig er gott að borða fisk svo sem sardínur. Hnetur, sesamfræ, möndlur, fíkjur og ef til vill mjólkurafurðir í hófi. Líkamsæfingar eins og jóga og Tai-chi eru góðar þar sem þær vinna vel með líkama, huga og sál.

Nálastungur eru ævafornt lækningakerfi þar sem nálum er stungið í vissa punkta á líkamanum til að bæta, endurbyggja, viðhalda og varðveita góða heilsu. Þessir punktar hafa nákvæma staðsetningu undir yfirborði húðarinnar og liggja í ákveðnum orkurásum um líkamann.

Meðhöndlarinn hlustar eftir orkuflæði líkamans með skilningi og þekkingu á sérstökum púlsum. Þá er hlustað eftir jafnvægi innan orkurásanna sem endurspeglast í 12 púlsum sem teknir eru á úlnlið. Hlustað er eftir flæði á orku sem kallast Qi (lífsorka) og flæðir í ýmsu formi um líkamann en þó einkum í orkurásunum tólf.

Þegar líður á ævina dregur úr orku ýmissa líffæra. Það er svo undir lífsstíl hvers og eins komið hvaða líffæri eða orkurásir eiga undir högg að sækja. Einkenni eins og höfuðverkur, svitakóf, svefnörðugleikar, minnkandi eða óreglulegar blæðingar, rugl á egglosi, þunglyndi og kvíði fara að gera vart við sig, svo eitthvað sé nefnt. Ekki má heldur gleyma tilfinningalega þættinum s.s. álagi, kvíða, reiði, hræðslu og sorg ásamt öðrum sálrænum áföllum. Allt hefur sitt að segja í því hvernig konur upplifa breytingaskeiðið og til hvaða ráða þær grípa til að lina mismikil einkenni.

Markmið nálastungumeðferðar er að koma á jafnvægi milli andstæðra eiginleika Qi, yin og yang. Leitað er eftir heildarmynd þar sem eitt leiðir af öðru þannig að hægt verði að meðhöndla orsök ójafnvægis frekar en sjúkdómseinkennin sjálf. Þegar orsakir ójafnvægis eru fundnar eru viðeigandi punktar valdir í samræmi við lögmál sem stjórna hreyfingu og uppbyggingu Qi líkamans.

Nálastungur örva mátt mannsins og svörun líkamans til endurnýjunar og viðhalds og hafa öldum saman verið notaðar sem fyrirbyggjandi meðferð. Þær mundu vissulega henta konum, sem hafa hug á að búa sig undir þetta skeið ævinnar og auka þannig líkurnar á því að það verði þeim léttbærara en ella.

Previous post

Lithimnugreining

Next post

Nuddmeðferðir

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *