GrænmetisréttirMataræðiSúpurUppskriftir

Tómatsúpa frá Zanzibar

Fór í matarboð til vinkonu minnar í gærkvöldi og fékk ég þessa dýrindis súpu hjá henni í forrétt – þvílíkt sælgæti – alveg á hreinu að hún verður forrétturinn hjá mér á aðfangadagskvöld. Gott er að undirbúa hana daginn áður, er svolítið tímafrek og verður bara betri fyrir vikið. Uppskriftin er fengin frá henni Sigrúnu á CafeSigrun.

Þessi súpa er rosa einföld og æðislega góð (fyrir utan að hún er að springa úr vítamínum og andoxunarefnum!). Upprunaleg uppskrift kemur úr bók sem heitir Swahili Kitchen, en ég bætti hvítlauk og kartöflum í uppskriftina.

Tómatarnir og helmingurinn af lauknum eru grillaðir í ofninum og þeir verða algert nammi þannig. Athugið að það tekur um 40-50 mínútur að grilla þá svo gefið ykkur góðan tíma. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol.

Fyrir 3-4 sem forréttur

 • 500 gr þroskaðir tómatar
 • 4 meðalstórir laukar, saxaðir fínt
 • 2 stórir hvítlauksgeirar, kramdir
 • 160 gr kartöflur
 • 1,5 kúfuð matskeið af tómatpuree (tómatmauk)
 • 500 ml grænmetissoð (1 gerlaus grænmetisteningur t.d. frá Rapunzel + 500 ml vatn). Má vera meira af vatni ef þið viljið hafa tómatsúpuna þynnri en bætið þá grænmetisteningi við.
 • 1 msk kókosfeiti eða ólífuolía
 • 1 tsk þurrkað basil
 • Pipar
 • Heilsusalt (Herbamare)
 • 4 soðin egg (má sleppa). Ég nota bara eggjahvítuna en hendi rauðunni eftir suðu.

Aðferð:

 • Skellið sjóðandi heitu vatni yfir tómatana og látið standa í skál í 1 mínútu.
 • Afhýðið tómatana.
 • Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (strjúkið smá ólífuolíu í eldhúspappír yfir eldfasta mótið).
 • Skerið tvo af laukunum fjórum í báta og raðið í eldfasta mótið.
 • Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
 • Saxið hina laukana tvo ásamt hvítlauknum og steikið í smá kókosfeiti eða ólífuolíu á pönnu þangað til þeir verða mjúkir.
 • Skerið kartöflurnar í bita og setjið á pönnu ásamt smá ólífuolíu og vatni og tómatpuree.
 • Bætið grænmetissoðinu saman við ásamt rúmlega 500 ml af vatni og látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
 • Þegar þetta er orðið tilbúið, látið þá kólna aðeins.
 • Setjið í matvinnsluvél og maukið.
 • Takið nú eldfasta mótið úr ofninum, kælið aðeins og færið líka yfir í matvinnsluvélina
 • Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
 • Berið fram með nýbökuðu brauði og soðnum eggjum (ég nota bara hvítuna).

Súpan sjálf er frábær grunnur fyrir góða grænmetissúpu. Ef þið viljið hafa meira grænmeti í henni (t.d. púrrulauk, gulrætur, sveppi, gular baunir o.s.frv.) léttsteikið þá grænmetið og látið malla í súpunni þangað til grænmetið er orðið meyrt.

Previous post

Lífrænt múslíkonfekt

Next post

Konfektkúlur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *